Almennir fjárfestar stukku á tækifærið er þeir fengu að fjárfesta í einkareknum fasteignafjárfestingasjóðum (e. Private real-estate investment trust, REIT) stóru eignarhaldsfélaganna vestanhafs fyrir um sjö árum síðan.
Fram að því höfðu eignarhaldsfélögin einungis sótt í lífeyrissjóði fagfjárfesta og þjóðarsjóði og var aðkoma almennings nær engin. Um er að ræða sjóði sem eiga atvinnu- eða iðnaðarhúsnæði og greiða háar arðgreiðslur af leigutekjunum sem þeir afla.
Samkvæmt The New York Times hefur það þó reynst þrautinni þyngri fyrir almenning að taka fé sitt úr sjóðunum.
Blackstone kynnti einn fyrsta fasteignafjárfestingarsjóðinn sem var í eigu eignarhaldsfélags í byrjun árs 2017 og voru komnir 12 slíkir sjóðir á markað í júní með eignir fyrir um 110 milljarða dali.
Sjóðirnir voru einstaklega aðlaðandi fjárfestingarkostir þegar stýrivextir voru lágir og greiddu þeir út arð sem samsvaraði um 4% af eignasafni þeirra. Þetta breyttist skyndilega árið 2022 þegar vextir byrjuðu að hækka og nú skildu jafnvel öruggustu ríkisskuldabréf sambærilegri ávöxtun.
Háir vextir hafa líka haft afar neikvæð áhrif á atvinnuhúsnæði í Bandaríkjunum.
Um 100 fasteignafjárfestingarsjóðir eru skráðir á markað og lenda fjárfestar þar í engum vandkvæðum við að selja í sjóðunum. Fer það fram með sama hætti og að kaupa og selja hlutabréf.
Hins vegar eru einkareknu sjóðirnir sem eru í stýringu hjá eignarhaldsfélögunum með önnur skilyrði. Sérstakar reglur gilda um bæði almenna og fagfjárfesta en venjulega þarf að líða um fimm ár áður hægt er að innleysa fé.
Almennir fjárfestar mega síðan ekki taka út meira en 5% af eignum sínum á hverjum ársfjórðungi en REIT-sjóðir í einkaeigu hafa nú verið að setja enn strangari skilyrði.
Einn stærsti einkarekni REIT-sjóðurinn, sem er í eigu Starwood, herti skilyrðin fyrir úttekt í maí. Starwood tilkynnti að félagið myndi einungis ráðast í endurkaup að verðmæti 1% af virði eigna sjóðsins á hverjum ársfjórðungi en upphaflega stóð til að kaupa um 5 prósent.
Sjóðurinn hafnaði síðan öllum úttektarbeiðnum þar sem hann vildi ekki neyðast til að selja fasteignir sem höfðu lækkað í verði til að mæta þeim.
Í ársbyrjun 2023 hertu Blackstone og KR hver um sig á úttektarmörkunum og höfnuðu einnig mörgum úttektarbeiðnum með sömu rökum.
Á nokkrum ársfjórðungum fengu fjárfestar þó fé sitt úr sjóðunum en ákvörðun Starwood í byrjun sumars er sögð hafa ítrekað vandræði sjóðanna og erfiðleika fjárfesta við að komast úr þeim.
Eignasafn sjóðanna hefur einnig lækkað töluvert og því eru þeir ekki jafn aðlaðandi fjárfestingarkostur og áður.
REIT-vísitalan, FTSE Nareit Index, hefur hún lækkað um 22% frá árinu 2021.