Íslandsbanki flokkaði átta viðskiptavini, sem voru almennir fjárfestar, sem fagfjárfesta án þess að skilyrði laga til þess hafi verið uppfyllt.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í samkomulagi Seðlabankans við Íslandsbanka um að ljúka rannsókn Fjármálaeftirlitsins á sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum með sátt.

Í sáttinni segir að Íslandsbanki hafi ýmist haft frumkvæði að og/eða hvatt viðskiptavini til að óska eftir því að fá stöðu fagfjárfestis og þar með afsala sér þeirri réttarvernd sem flokkun sem almennur fjárfestir veitir.

Þá hafi bankinn breytt flokkun viðskiptavina sem tóku þátt í útboði sem einungis var ætlað hæfum fjárfestum eftir að það hófst og allt fram að uppgjöri viðskipta.

„Enn fremur vanrækti málsaðili að framfylgja innri reglum og verklagi sem málsaðili hefur sett sér við flokkun viðskiptavina."

Veitti Bankasýslunni villandi upplýsingar

Í sáttinni segir jafnframt að brot Íslandsbanka lúti að því að hafa veitt Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir Bankasýsluna að kvöldi 22. mars 2022.

„Enn fremur var Bankasýslu ríkisins veittar villandi upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu þar sem nokkrir viðskiptavinir málsaðila sem stóðu að baki tilboðum í tilboðsbókinni höfðu ekki fengið flokkun sem fagfjárfestar á því tímamarki."