Nýr fjármálaráðherra Bretlands, Rachel Reeves, hefur fallið frá fyrri áformum bresku ríkisstjórnarinnar um að selja hlut ríkisins í Natwest bankasamstæðunni í almennu útboði, þar sem það væri einfaldlega of kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur. Má því ætla að stjórnvöld losi þess í stað um hlut sinn í lokuðu útboði til fagfjárfesta. Reuters greinir frá þessu.

Reeves, sem tók við sem fjármálaráðherra í kjölfar sigurs Verkamannaflokksins í nýlegum þingkosningum, sagði stjórnvöld enn stefna á að vera búin að losa um allan hlut sinn í bankasamstæðunni á tímabilinu 2025-2026. Aftur á móti myndi almennt útboð á hlutabréfunum krefjast þess að veittur yrði hundruð milljóna punda afsláttur. „Það yrði þar af leiðandi ekki þess virði og mun því ekki fara fram,“ sagði Reeves. Íhaldsflokkurinn, sem hélt um stjórntaumana fyrir kosningarnar fyrr í sumar, vildi selja hlutina í almennu útboði, m.a. til að flýta söluferlinu.

Breska ríkið fékk Natwest í fangið í fjármálahruninu árið 2008 en í júlí greindi bankasamstæðan frá því að hlutur ríkisins væri kominn niður fyrir 20%.

Íslandsbanki seldur í almennu útboði

Segja má að bresk stjórnvöld séu að fara þveröfuga leið miðað við stjórnvöld hér á landi en eins og sagt hefur verið frá ætla þau að losa um eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka með almennu útboði.

Eitt stærsta fréttaefni síðustu ára var sala ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði til fagfjárfesta. Þó erfitt sé að halda öðru fram en að fjárhagsleg niðurstaða þeirra viðskipta hafi verið ríkissjóði hagfelld voru ýmsir annmarkar við framkvæmd sölunnar. Enda fór það svo að lokum að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands sektaði Íslandsbanka 1,2 milljarða og bankinn gengst við að hafa brotið gegn tilteknum ákvæðum laga um markaði með fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtæki í tengslum við útboðið.