Norður-kóreskir hópar hafa stolið rafmyntum að andvirði 1,34 milljarðar dala í ár. Rafmyntastuldur hópa tengdum Norður-Kóreu meira en tvöfaldaðist milli ára, samkvæmt gögnum Chainalysis, gagnaveitu á sviði rafmynta.
Tveir þriðju af rafmyntastuldi á heimsvísu má rekja til Norður-Kóreu, að því er segir í umfjöllun Financial Times.
Talið er að hakkarar frá Norður-Kóreu hafi m.a. verið á bak við stuld á 4.500 bitcoin að andvirði 305 milljónir dala, eða yfir 42 milljarðar króna, af japönsku rafmyntakauphöllinni DMM Bitcoin í maí.
Aðstoðarríkissaksóknari þjóðaröryggis hjá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sagði við blaðamenn árið 2021 að norður-kóreskir hakkarar væru orðnir „leiðandi bankaræningjar heims“, vegna máls er varðar stuldur upp á meira en 1,3 milljarða dala af reiðufé og rafmyntum frá bönkum og öðrum fyrirtækjum með netárásunum.
Sérfræðingar hjá Sameinuðu þjóðunum sem hafa eftirlit með framkvæmd alþjóðlegra refsiaðgerða hafa staðfest að Norður-Kórea noti fjármuni sem aflað er í gegnum glæpsamlegum netárárásum til að fjármagna ólögleg eldflauga- og kjarnorkuvopnaverkefni.
Bandarísk stjórnvöld áætla að rekja megi allt að þriðjung af fjármögnun umræddra verkefna til netglæpa.