Þjóðhátíðardagur Kína var haldinn hátíðlegur um allt alþýðuveldið í dag. Á götum landsins mátti sjá raðir af fánum ásamt vegfarendum á leið á lestarstöð til að heimsækja ættingja úti á landi og nýta vikulanga fríið sem fylgir deginum.

Búist er við hátt í 175 milljónum lestarferða um allt land milli 29. september og 8. október samkvæmt ríkisrekna lestarfyrirtækinu China State Railway Group.

Kínverjar fá ekki mörg frí á hverju ári en þegar þau eiga sér stað eru þau vel nýtt. Þegar kínverska nýárið átti sér stað ferðuðust rúmlega 474 milljónir Kínverja innanlands, þar á meðal 18 milljónir með flugi.

Fyrir aðeins tveimur árum síðan var þessi tala mun minni, eða um 130 milljónir ferðamanna. Árið 2021 ferðuðust ekki nema 98 milljónir Kínverja innanlands, eða um 77% minna en árið 2019.

Á þeim tíma var mun erfiðara að ferðast sökum heimsfaraldurs en kínversk stjórnvöld urðu fræg á heimsvísu fyrir að taka sérstaklega stranga afstöðu þegar kom að samkomutakmörkunum. Útgöngubann var í mörgum stórborgum eins og Shanghai og lækkaði landsframleiðsla úr 6% árið 2019 niður í 2,2% árið 2020.

Týnda kynslóðin og rusltími sögunnar

Þegar Kínverjar fögnuðu þjóðhátíðardegi sínum árið 2019 sögðu margir hagfræðingar að Kína væri aðeins hársbreidd frá því að taka fram úr Bandaríkjunum og verða stærsta hagkerfi í heimi.

Eins og stendur eru áhyggjur um að Kína gæti upplifað hina svokölluðu týndu kynslóð sem Japan upplifði þegar hagkerfið fór að hrynja eftir að húsnæðisbólan þar í landi sprakk á tíunda áratugnum.

Undanfarna mánuði hafa ungir netverjar á kínverskum samfélagsmiðlum verið að tjá sig um núverandi ástand þjóðarinnar og hefur ákveðinn frasi litið dagsins ljós: Rusltími sögunnar (历史的垃圾时间).

Setningin tengist grein Ma Xiangyang sem birtist í The Economic Observer þar sem höfundurinn vitnar í tímabil Ming-keisaraveldisins og kallar það rusltímabil sögunnar. Tímabilið hófst með Zhu Yuanzhang, fyrsta keisara Ming-veldisins, sem notaðist við mikið harðræði í von um að vernda orðspor og valdastöðu fjölskyldunnar. Sumir sérfræðingar töldu að greinin hafi verið bein tilvísun í núverandi stjórnarhætti Xi Jinping.

Frasinn hefur engu að síður orðið vinsæll meðal Kínverja sem finna fyrir ákveðnu vonleysi þegar kemur að því sem átti að vera kínverska efnahagsöldin. Atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 16 til 24 ára í Kína var 18,8% í ágúst samkvæmt opinberum tölum og hafa mörg þeirra einnig tekið upp frasa eins og að liggja flöt (躺平) og að brenna út (内卷) til að lýsa stöðu sinni.

Viðsnúningur

Þrátt fyrir Covid-aðgerðir stjórnvalda undanfarin ár og erfiða stöðu á húsnæðis- og neytendamarkaðinum þá fékk kínverski hlutabréfamarkaðurinn ágætis fréttir í gær. Gengi hlutabréfa ruku þá upp og höfðu ekki hækkað jafn mikið á einum degi síðan 2008.

Kínverska hlutabréfavísitalan CSI 300, sem inniheldur skráð félög í kauphöllum Shanghai og Shenzhen, hækkaði um 8,5% og hefur vísitalan nú hækkað um 24% á einni viku. Ástæðan var sögð vera víðtækar örvunaraðgerðir frá stjórnvöldum.

Hækkanir í viðskiptum mátti þó einnig rekja til þess að kauphöllin í Shanghai verður lokuð út vikuna í tilefni af þjóðhátíðardeginum og er kauphöllin í Hong Kong einnig lokuð í dag.

Viðsnúningurinn er vissulega gleðiefni fyrir fjárfesta en fregnirnar gera þó lítið fyrir þá kynslóð Kínverja sem er ekki á hlutabréfamarkaðnum. Eftir að hafa alist upp við gríðarlegan hagvöxt alla sína ævi er þessi kynslóð farin að hafa áhyggjur af því að þau muni ekki ná að þéna jafn mikið og foreldrar sínir.

Þetta gæti reynst vandamál fyrir kommúnistaflokkinn sem hefur í áratugi byggt lögmæti sitt á tveimur hlutum, hagvexti og þjóðernishyggju. Þegar hægir á hagvexti í landinu þá er gjarnan hefð fyrir því að fylla upp í skarðið með þjóðernishyggju og er enginn skortur á henni í núverandi umhverfi alþjóðadeilna.