Festi, móðurfélag N1, Krónunnar og Elko, barst í gær andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu (SKE) vegna ætlaðra brota á skilyrðum sáttar í tengslum við samruna félagsins og N1 árið 2019. Frummat SKE er að meint brot Festi séu alvarleg og að til álita komi að beita viðurlögum, að því er kemur fram í tilkynningu Festi til Kauphallarinnar.

„Festi er enn þeirrar skoðunar að félagið hafi ekki brotið gegn ákvæðum sáttarinnar við SE og er vinna hafin við að bregðast við tilgreindu andmælaskjali og því frummati sem þar er lýst.“

Festi segir að andmælaskjalið sé liður í málsmeðferð rannsóknar sem hófst með tilkynningu SKE til félagsins í desember 2020. Festi svaraði formlega fyrirspurnum SKE í febrúar 2021.

Í andmælaskjalinu sé gerð grein fyrir því frummati að Festi hafi í nokkrum liðum brotið gegn ákvæðum sáttar félagsins við SE sem gerð var 30. júlí 2018 vegna samruna N1 og Festi. Festi áréttar að andmælaskjal SE feli hvorki í sér stjórnvaldsákvörðun né er það á nokkurn hátt bindandi.

„Svo sem greinir í andmælaskjalinu er það ritað í þeim tilgangi að auðvelda Festi að nýta andmælarétt sinn samkvæmt stjórnsýslulögum og stuðla að því að rétt ákvörðun verði tekin í málinu. Þá er því lýst að ef athugasemdir, skýringar eða ný gögn þykja gefa tilefni til, geti frummat SE tekið breytingum.“

Skilyrði framangreindrar sáttar fólu m.a. í sér sölu eigna á eldsneytismarkaði til nýs aðila þar sem Krónan taldist líklegur keppinautur N1 á markaðnum, að því er segir í ákvörðun eftirlitsins frá árinu 2019. Að undangenginni sölumeðferð og athugun óháðs kunnáttumanns, sem skipaður var í ágúst 2018 til að hafa eftirlit með framkvæmd sáttarinnar, samþykkti Samkeppniseftirlitið kaupendur hinna seldu eigna í febrúar og mars 2019.