Auk Andakílsárvirkjunar, sem er lítil 9 megavatta vatnsaflsvirkjun í Borgarfirði, á Orkuveitan tvær stórar jarðvarmavirkjanir. Annars vegar Nesjavallavirkjun, sem er með afkastagetu upp á 120 megavött og hins vegar Hellisheiðarvirkjun, sem er með um 303 megavatta afkastagetu.
Hvað raforkuframleiðslu varðar þá segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, að fyrirtækið sé fyrst og fremst að einbeita sér að því að viðhalda vinnslugetu þeirra virkjana sem fyrirtækið eigi.
„Það þarf að leggja verulegt fé til að afla gufu fyrir Hellisheiðarvirkjun,“ segir Bjarni. „Við erum búin að tengja háhitasvæðið í Hverahlíð við virkjunina og það stendur undir um það bil 50 megavatta vinnslu en það þarf meira til. Þau jarðhitasvæði, sem voru hugsuð sem nægjanleg fyrir Hellisheiðarvirkjun, hafa ekki reynst nógu góð og vinnslugetan á þeim er að dala, sem er alvarlegt mál. Jarðhitasvæðin eru ekki eins sterk og haldið var í fyrstu. Þetta vissum við strax árið 2012, þess vegna tengdum við Hverahlíðarsvæðið við Hellisheiðarvirkjun. Upphaflega stóð til að byggja þar sjálfstæða virkjun.“
Bjarni segir að Hellisheiðarvirkjun sé keyrð á um það bil fullum afköstum í dag enda njóti hún gufunnar frá Hverahlíð.
„Við sjáum aftur á móti að við munum þurfa að fjárfesta þó nokkuð í borunum til að viðhalda framleiðslunni. Það er gert ráð fyrir um það bil 20 milljörðum í þessari sex ára áætlun í að afla gufu og síðan 5 milljarða í viðbót til að tryggja að við getum skilað vinnsluvatninu aftur niður í jarðhitakerfið. Þannig að þetta eru um það bil 25 milljarðar á næstu sex árum, sem er verulegt fé. Við höfum engin áform um að byggja frekari virkjanir. Þetta er samkeppnisstarfsemi og ekki hluti af skylduverkefnum sveitarfélaga. Veitureksturinn, sem er sérleyfisstarfsemi, er af allt öðrum toga. Það er hlutverk sveitarfélaga að hafa hann í góðu horfi.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .