Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gagnrýnir áform ríkisstjórnarinnar um aukna skattlagningu á sjávarútveginn harðlega í Morgunblaðinu í dag.
Í grein sinni segir Sigríður Margrét stjórnvöld og stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að landinu sé stjórnað á þann hátt að verðmætasköpun standi undir lífskjörum landsmanna.
Skilvirkt og skynsamlegt skattkerfi er öllum þjóðum nauðsynlegt en umhverfið verður að vera með þeim hætti að framtakssamir einstaklingar hafi hvata til þess að stofna fyrirtæki, ráðast í fjárfestingar og skapa störf sem búa til verðmæti.
Virkur tekjuskattur fyrirtækja á Íslandi er 38% í dag. Virkur tekjuskattur þeirra fyrirtækja sem stunda fiskveiðar er 58%.
Sigríður bendir á að nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar muni hækka virkan tekjuskatt þeirra sem stunda fiskveiðar í 76%.
„Ísland er ekki eyland þegar kemur að verðmætasköpun. Ísland er í samkeppni við aðrar þjóðir um hæfileikaríkt fólk og fjárfestingar. Alþjóðaviðskipti eru lífæð Íslands. Við flytjum meirihluta þeirra nauðsynjavara sem við þurfum á að halda í daglegu lífi inn til landsins og sterkur og samkeppnishæfur útflutningsgeiri er Íslandi þess vegna nauðsynlegur. Á tímum ófriðar, óvissu og mikilla breytinga á alþjóðavettvangi ættu stjórnmálamenn að þétta raðirnar, snúa bökum saman við atvinnulífið og verja hagsmuni Íslendinga af krafti á alþjóðlegum vettvangi. Það gera aðrar þjóðir um þessar mundir.“
Sigríður Margrét segir þetta ekki stöðuna hérlendis þar sem ný ríkisstjórn hefur „undanfarið varið kröftum sínum í að breyta rekstrarumhverfi sjávarútvegs á Íslandi og látið orð falla sem gefa það til kynna að íslenskur sjávarútvegur sé óvinur þjóðarinnar.“
„Atvinnuvegaráðherra hefur sagt að greinin „mali gull“ og skrifað grein um sjávarútveg með tilvísun í leikna sjónvarpsseríu, auk þess sem látið hefur verið að því liggja að arður úr greininni sé notaður til þess að kaupa upp Ísland. Slíkar yfirlýsingar eru til þess fallnar að skapa þau hughrif, ranglega, að íslenskur sjávarútvegur sé óvinur þjóðarinnar og réttlæta aðför að rekstrarskilyrðum greinarinnar,“ skrifar Sigríður.
Sigríður segir staðreyndirnar allt aðrar en þær sem finna megi í hugarheimi nýrrar ríkisstjórnar. Í íslenskum sjávarútvegi starfa tæplega átta þúsund manns. Íslenskur sjávarútvegur er sú atvinnugrein sem greiðir hæstu launin og ber mesta launakostnað allra greina.
„Þannig hefur það verið eins langt og tölur Hagstofu ná, þó svo að aðrar greinar standi fyrir fleiri störfum. Launakostnaður sjávarútvegsfyrirtækja stendur undir ráðstöfunartekjum fólks, velferðarkerfum í gegnum skatta, ævisparnaði þeirra sem starfa í greininni í gegnum lífeyrissjóðina og tryggingum sem grípa fólk þegar á þarf að halda hvort sem er í veikindum, atvinnuleysi eða fæðingarorlofi,“ skrifar Sigríður.
Virkur tekjuskattur fer í 78%
Sigríður bendir á að virkur tekjuskattur fyrirtækja á Íslandi sé 38% í dag. Virkur tekjuskattur þeirra fyrirtækja sem stunda fiskveiðar er 58%.
„Nýtt frumvarp atvinnuvegaráðherra mun hækka virkan tekjuskatt þeirra sem stunda fiskveiðar í 76%. Það er augljóst að slík ofurskattlagning er ekki til þess fallin að hvetja framtakssama einstaklinga til þess að fjárfesta í atvinnugreininni en það sem er verra er að slík ofurskattlagning hefur fælingarmátt þegar kemur að fjárfestingu í atvinnulífinu í heild sinni,“ skrifar Sigríður.
„Ríkisstjórnin hefur búið til nýtt óvissuálag þegar kemur að verðmætasköpun, sem mun fylgja henni út kjörtímabilið. Óvinur eða vinur Stóra spurningin er hver ber ábyrgð á þeirri óvild sem hér birtist í garð undirstöðuatvinnugreinar landsins. Atvinnugreinar sem hefur lagt grunninn að þeim lífskjörum sem við búum við og þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem veita sjávarútvegsfyrirtækjum þjónustu eða hafa orðið til í kjölfar nýsköpunar í tengslum við sjávarútveg,“ skrifar Sigríður og bætir við að greinin búi nú þegar við mun hærri skatta og þrengri skilyrði en aðrar atvinnugreinar.
Sigríður bendir á að forsenda góðra lífskjara, framþróunar og efnahagslegs styrks Íslands er vilji einstaklinga til þess að fjárfesta í atvinnurekstri. Fyrirtæki sem bjóða vörur og þjónustu sem eftirspurn er eftir á hagkvæman hátt skapa störf og stuðla að nýsköpun og umsvifum í hagkerfinu.
„Ísland er háskattaríki og óvarlegt er að hækka frekar skatta, enda draga hærri skattar úr samkeppnishæfni landsins og verðmætasköpun til lengri tíma. Fyrirtækjaskattar og skattar á laun og fjármagn eru sérlega skaðlegir þegar kemur að áhrifum á hagvöxt. Flest lönd innan OECD hafa áttað sig á neikvæðum áhrifum slíkra skatta og hafa því skattar á fjármagn og fyrirtæki almennt farið lækkandi á undanförnum áratugum.“
„Það er þyngra en tárum taki að ný ríkisstjórn skuli beina kröftum sínum í aðför að undirstöðuatvinnugrein landsins, sem býr nú þegar við þrengri rekstrarskilyrði en aðrar greinar, á tímum þegar aðstæður kalla á að leiðtogar á öllum sviðum blási framtakssömu fólki baráttuanda í brjóst með sýn um aukna hagsæld og tækifæri fyrir Ísland á alþjóðavettvangi. Það er þyngra en tárum taki að ný ríkisstjórn ætli að búa til sérstakt óvissuálag í atvinnulífinu á tímum þegar efnahagslegur styrkur er forsenda öryggis og vinna ætti ötullega að því að efla hagvöxt á Íslandi. Það ber að leiðrétta.“