Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sínu viti sé frumkvæðisathugun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um lögmæti netsölu áfengis brot á þingsköpum.
Minnihluti nefndarinnar ákvað að hefja rannsókn netsölunni í vor en Hildur og Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa lagst gegn því að stjórnmálin séu nýtt með þessum hætti.
„Hér er um brot á þingsköpum að ræða að mínu viti. Þingsköp segja skýrt að hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í frumkvæðisathugunum sé að skoða ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra. Ekkert slíkt er um að ræða í máli þessu,“ sagði Hildur á Alþingi í dag.
Borgarar kvaddir í pólitíska yfirheyrslu
Minnihluti nefndarinnar boðaði á fund sinn Árna Guðmundsson frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum, Björn Sævar Einarsson og Aðalstein Gunnarsson frá IOGT á Íslandi, Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur og Svein Víking Árnason frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og Arnar Sigurðsson frá Sante.is.
„Það er ekki hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hlutast til um sakamálarannsóknir í þessu landi. Það er ekki hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að spyrja ákveðinna lögspurninga út í loftið og ég tala nú ekki um þegar borgarar þessa lands eru kvaddir fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að sitja í einhvers konar pólitískri yfirheyrslu af minnihlutanum,” sagði Hildur á Alþingi í morgun.
Í bókun Hildar og Berglindar segir að netsalan hafi verið kærð til lögreglu og sé það hið lögformlega ferli sakamála.
Telji ákæruvaldið að netsala áfengis sé refsiverð er gefin út ákæra og að lokum ber dómstóla að skera úr um lögmæti hennar.
Nefndin misnotuð í pólitískum tilgangi
Að mati Hildar vegur ákvörðun nefndarinnar að hafa afskipti af því lögformlega ferli með að sjálfstæði ákæruvaldsins og dómstóla þungt, en sakamál eiga að vera laus frá afskiptum stjórnmálanna.
„Við gagnrýnum að sjálfstæði ákæruvalds og dómsvalds sé þarna haft að engu. Það er alvarlegt þegar pólitíkin ætlar að hlutast til um sakamál í þessu landi. En hér vil ég segja algjörlega skýrt að það er ekkert nema sjálfsagt að hafa skoðanir á netverslun áfengis. Hæstv. dómsmálaráðherra mun hér eftir nokkrar vikur koma fram með frumvarp um netsölu áfengis. Við munum taka þátt í þeirri umræðu eins og sjálfsagt er í þessari pontu. En við misnotum ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í pólitískum tilgangi,” sagði Hildur á Alþingi.