Rio Tinto hefur niðurfært eignir sínar vegna álversins í Straumsvík niður að fullu eða um 269 milljónir dollara, rúmlega 36 milljarðar króna. Frá þessu er greint í árshlutauppgjöri félagsins.
Ástæðan er sú að vænt tekjustreymi eignarinnar í framtíðinni virðist ekki vera nægt. Félagið meti eignina því verðlausa og hafa þau því niðurfært hana að fullu. Slíkt hið sama var gert við verksmiðjur þeirra í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Á miðvikudag í síðustu viku lagði Rio Tinto fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins þess efnis að Landsvirkjun væri að misnota yfirburðastöðu sína gagnvart ISAL. Um 500 manns vinna hjá álverinu.
Sjá einnig: Bókfæra milljarða tap vegna ISAL
Einnig kemur fram að álframleiðsla félagsins á heimsvísu hafi dregist saman um 2% á fyrri hluta ársins. Meðal skýringa fyrir þeim samdrætti er sagt frá því að ISAL verksmiðjan á Íslandi hafi einungis verið rekin á 85% getu.