Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 2,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fimmtán félög lækkuðu og sex hækkuðu í viðskiptum dagsins. Hlutabréf Alvotech og Amaroq Minerals lækkuðu mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,3%.
Hlutabréfaverð Alvotech hefur lækkað um 19% síðustu vikuna eða frá því að félagið birti eftir ársuppgjör 2024 og tekju- og afkomuhorfur fyrir yfirstandandi ár. Eftir 29% lækkun það sem af er ári stendur gengi hlutabréfa Alvotech í 1.255 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í nóvember 2023.
Hlutabréfaverð Amaroq stendur nú í 147,5 krónum á hlut og hefur því lækkað um 29,4% frá því að dagslokagengi málmleitarfélagsins náði hæstu hæðum í 209 krónum 14. janúar síðastliðinn. Gengi Amaroq var síðast lægra í byrjun desember síðastliðnum.
Fasteignafélagið Reitir, sem er með aðalfund í dag, hækkaði mest á aðalmarkaðnum eða um 1,9% í 164 milljóna króna veltu. Gengi Reita stendur nú í 107 krónum á hlut og er um 8,6% lægra en í upphafi árs.