„Rannsókna- og þróunarstarf er í eðli sínu langhlaup. Þegar ég stofnaði Alvotech þurfti ég að útskýra fyrir fjárfestum að það tæki okkur um tíu ár og ríflega 140 milljarða króna að koma upp fullkominni aðstöðu og markaðssetja fyrstu hliðstæðuna. Það er gaman að segja frá því að upprunalega áætlunin gekk eftir, við vorum meira að segja ári á undan áætlun þegar fyrsta lyfið kom á markað vorið 2022,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvotech.

Félagið hefur áður greint frá því að það geri ráð fyrir um fimmföldun tekna á árinu 2024 og að þær gætu allt að tvöfaldast á þessu ári.

„Ef áætlanir okkar ganga eftir gæti EBITDA (verg hlutdeild fjármagns) Alvotech orðið álíka og alls sjávarútvegs á Íslandi í framtíðinni, sem er auðvitað ótrúlegur árangur fyrir eitt fyrirtæki í nýjum iðnaði, framleiðslu líftæknilyfja, sem þekktist ekki áður hérlendis.

Þetta sýnir hverju hægt er að áorka þegar framleiðslan er ekki bundin af öðru en hugviti. Lyfjaiðnaður er, ólíkt hinum hefðbundnu þremur stoðum útflutnings: álframleiðslu, fiskveiðum og ferðaþjónustu, ekki byggður á nýtingu takmarkaðra náttúrugæða.“

Alvotech geti orðið „Novo Nordisk Íslands“

Róbert ber möguleg áhrif Alvotech á landsframleiðslu Íslands við áhrif Novo Nordisk á danskt efnahagslíf.

„Ef áætlanir okkar ganga eftir gætu áhrif Alvotech á útflutningstekjur og landsframleiðslu orðið sambærileg við áhrif Novo Nordisk á danskt efnahagslíf. Vöxtur Novo Nordisk, sem rekja má til velgengni Ozempic og Wegovy, sýnir hvað líftækni og lyfjaframleiðsla getur skilað miklum tekjum og framlegð ef vel gengur.“

Spurður um stærstu áskoranir félagsins um þessar mundir segir Róbert að flokka megi þær undir „lúxusvandamál“. Auka þurfi afköst í framleiðslunni til að mæta eftirspurn og undirbúa markaðssetningu nýrra lyfja á árinu.

„Þessa dagana erum við að undirbúa markaðssetningu hliðstæðunnar við Stelara í Bandaríkjunum. Frumlyfið hefur verið eitt söluhæsta lyf heims. Það er í flokki bólgulyfja eins og Humira, en hliðstæðu þess settum við á markað í Evrópu og víðar á árinu 2022 og í Bandaríkjunum á síðasta ári.

Hliðstæða okkar við Stelara er þegar komin á markað í um 35 löndum, þar á meðal í Japan, Kanada og Evrópu. Salan hefur gengið mjög vel, sérstaklega í Evrópu þar sem við vorum skrefi á undan öðrum framleiðendum og leiðum markaðinn. Þessi samkeppni tryggir fleiri sjúklingum greiðari aðgang að mikilvægu lyfi,“ segir Róbert.

Seinna á árinu hefst markaðssetning þriggja nýrra lyfja sem félagið gerir ráð fyrir að hljóti markaðsleyfi fyrir lok þessa árs.

Um er að ræða bólgulyf sem er hliðstæða við Simponi og Simponi Aria, augnlyf sem er hliðstæða við Eylea og hliðstæða við tvö lyf Prolia, sem er notað til meðferðar við beinþynningu, og Xgeva sem er notað til meðferðar við illkynja sjúkdómum í beinum.

„Þessi hraði vöxtur kallar á fjölda ráðninga og þjálfun nýs starfsfólks. Við gerum ráð fyrir að ráða meira en 200 nýja starfsmenn á þessu ári.“

Nánar er rætt við Róbert í sérblaðinu Viðskiptaþing - Forskot til framtíðar. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.