Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,25% í 3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Hlutabréf fjórtán félaga aðalmarkaðarins hækkuðu en sex lækkuðu í viðskiptum dagsins.
Mesta veltan, eða 827 milljónir króna, var með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 6,2%, mest af félögum Kauphallarinnar. Gengi Alvotech stendur nú í 1.200 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra síðan 13. júní síðastliðinn.
Auk Alvotech hækkuðu hlutabréf fjögurra annarra félaga um meira en tvö prósent í viðskiptum dagsins, þó í takmarkaðri veltu. Af þeim var mesta veltan með hlutabréf Amaroq sem hækkuðu um 2,4% í 122 milljónum króna Gengi Amaroq stendur nú í 130 krónum á hlut.
Hlutabréf tveggja félaga lækkuðu um meira en eitt prósent í dag; Sýnar og Icelandair. Hlutabréfaverð Sýnar lækkaði mest eða um 3% í ellefu milljóna króna veltu. Gengi fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins stendur nú í 31,8 krónum og hefur engu að síður hækkað um 28% á síðastliðnum mánuði.
Gengi Icelandair féll um 1,4% í 37 milljóna veltu og stendur nú í 1,03 krónum á hlut. Hlutabréfaverð flugfélagsins hefur nú fallið um 19,5% frá birtingu árshlutauppgjörs þann 17. júlí síðastliðinn.