Úrvalsvísitalan féll um 1,07% í tæplega fjögurra milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Sautján af 23 félögum aðalmarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins.
Mesta veltan á aðalmarkaðnum, eða um 750 milljónir króna, var með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 2,5%. Dagslokagengi Alvotech náði nýjum hæðum í 2.050 krónum á hlut. Gengi líftæknifyrirtækisins fór upp í 2.200 krónur í hádeginu í dag en lækkaði aðeins þegar leið á daginn.
Auk Alvotech hækkaði hlutabréfaverð Kviku banka um 1,3% og Haga um 0,7%.
Reitir leiddu lækkanir á aðalmarkaðnum en hlutabréf fasteignafélagsins lækkuðu um 3,5%. Þá lækkaði gengi Regins, Nova og Icelandair einnig um meira en 1% í dag.
Á First North-markaðnum lækkuðu hlutabréf fasteignafélagsins Kaldalóns og flugfélagsins Play um 4,5%-4,8%. Gengi Play endaði daginn í 10,6 krónum á hlut og hefur aldrei verið lægra.
16 milljarða velta á skuldabréfamarkaðnum
Velta á skuldabréfamarkaðnum nam 16 milljörðum króna í dag, sem má að megninu til rekja til nýrra verðbólgutalna í morgun. Verðbólguálag jókst talsvert í viðskiptum dagsins.
Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkaði um 31-35 punkta í öllum flokkum nema þeim lengsta, RIKB 42, en krafan í þeim flokki hækkaði um 20 punkta.
Ávöxtunarkrafa stystu verðtryggðu ríkisskuldabréfanna, RIKS 26, lækkaði um 20 punkta en krafan hækkaði lítillega í lengri flokkum verðtryggðra ríkisskuldabréfa.
Skuldabréfamarkaður brást sterkt við verðbólgutölum í morgun. Krafa óverðtryggðra ríkisbréfa rauk upp en lækkaði aðeins í verðtryggðum bréfum.
— Jón Bjarki (@JBentsson) February 27, 2023
Verðbólguálag til 10 ára er nú ríflega 5% og markaðurinn að verðleggja bæði frekari vaxtahækkun og mikla verðbólgu í vaxtaferlana. pic.twitter.com/ngpDzSJYd7