Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,7% í 3,9 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Sextán félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og átta lækkuðu.

Mesta veltan eða um 2 milljarðar króna var með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 2,9% en megnið af veltunni má rekja til 1,5 milljarða króna utanþingsviðskipta sem tilkynnt var um við opnun Kauphallarinnar í morgun. Gengi Alvotech stendur nú í 1.665 krónum á hlut og er um 5% hærra en í byrjun árs.

Auk Alvotech þá hækkuðu hlutabréf Ölgerðarinnar, Íslandsbanka og Eimskips um meira 2% í dag. Ölgerðin hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,9% 113 milljóna veltu. Gengi drykkjavöruframleiðandans stendur nú í 18 krónum og er um 21% hærra en í upphafi árs.

Fjögur félög á aðalmarkaðnum lækkuðu um meira en eitt prósent í dag, öll í fremur lítilli veltu. Hlutabréfaverð Skeljar fjárfestingarfélags lækkaði mest eða um 1,3% í 31 milljónar króna viðskiptum. Gengi Skeljar stendur nú í 15,0 krónum og er um 1,6% lægra en í árslok 2023.