Gengi bréfa hjá 16 af 23 félögum á aðalmarkaði hækkaði í viðskiptum dagsins. Þá nam heildarvelta á markaði þremur milljörðum króna.

Gengi bréfa Alvotech hækkaði um 9,5% í 130 milljón króna viðskiptum. Hlutabréfaverð í félaginu hefur nú hækkað um rúm 20% frá áramótum.

Þá hækkaði Marel sömuleiðis um 1,9%, en viðskipti með bréf félagsins námu 600 milljónum. Eik hækkaði um 1,75%, Iceland Seafood um 1,7% og Kvika um 1,55%.

Aðeins fjögur félög lækkuðu á aðalmarkaði í dag. Það eru Íslandsbanki, Arion banki, Vís og Sjóvá. Íslandsbanki lækkaði um 1,2% í 112 milljón króna viðskiptum. Þá var mesta veltan með bréf Arion banka, en bréf í bankanum lækkuðu um 0,66% í 860 milljón króna viðskiptum.

Á First North markaðnum hækkaði gengi bréfa Play um 1,5% í 18 milljón króna viðskiptum. Þá hækkaði Hampiðjan um 2,6%, en viðskipti með bréf félagsins námu 23 milljónum.