Alvotech, Háskóli Íslands og Vísindagarðar HÍ hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf í Djúptæknisetri, rannsóknarsetri sem rís við Bjargargötu 3 í Vatnsmýri.

Jafnframt hafa aðilarnir gert samning um leigu á húsnæði í Frumunni, Klettagörðum 6, fyrir starfsemi Háskóla Íslands og sprotafyrirtækja á sviði iðnaðarlíftækni.

„Alvotech og Háskóli Íslands hafa átt farsælt samstarf allt frá því að Alvotech hóf starfsemi í Vísindagörðum. Meðal annars hafa aðilar unnið saman að uppbyggingu á námslínu sem nú er í boði sem meistaranám í iðnaðarlíftækni í Frumunni,“ segir í tilkynningu.

Viljayfirlýsingin snýr að því að skapa sameiginlega aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki í Klettagörðum til bráðabirgða, en stefnt er að því að starfsemin flytjist síðar í djúptæknisetrið í Vatnsmýri. Alvotech hefur jafnframt lýst yfir áhuga á að nýta sér rannsóknarinnviði í djúptæknisetrinu þegar það tekur til starfa.

Þá segir að viljayfirlýsingin styrki fjárhagslegan grundvöll djúptæknisetursins og að Alvotech sé þar lykilaðili í undirbúningi byggingarinnar með sérþekkingu sína og reynslu.