Alvotech tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði tryggt aðgengi að nýrri fjármögnun að fjárhæð 136 milljónir Bandaríkjadala eða tæplega 20 milljarðar króna miðað við gengi dagsins. „Fjármögnuninni er ætla að auka sveigjanleika og styður við áframhaldandi vöxt í þróun fyrirhugaðra líftæknilyfjahliðstæða fyrirtækisins,“ segir Joel Morales, fjármálastjóri Alvotech, í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Alvotech hefur stækkað flokk veðskuldabréfa um 10,2 milljarða króna með viðbótarfjárfestingu frá Farallon Capital Management, Sculptor Capital Management, Oaktree Capital Management, Lodbrok Capital og Morgan Stanley. Þessir skuldabréfaeigendur hafa einnig eignast áskriftarrétt að 2,5% af almennum hlutum í Alvotech. Áskriftarréttirnir munu falla niður ef Alvotech gerir samninga um aðra fjármögnun, í samræmi við skilmála skuldabréfanna.
Þá hefur Alvotech einnig tryggt aðgang að fjármögnun frá Alvogen með loforði um 7,3 milljarða króna víkjandi lán, sem einnig veitir rétt til að nýta áskriftarréttindi fyrir 4,0% af almennum hlutum í Alvotech. Áskriftarréttirnir falla niður ef Alvotech nýtir ekki fjármögnunina og gerir samninga um aðra fjármögnun í hennar stað, í samræmi við skilmála lánasamningsins, fyrir 15. desember næstkomandi.
Taka við verksmiðjunni í Vatnsmýri af Aztiq
Janframt kemur fram að eignarhald á verksmiðjuhúsnæði fyrirtækisins í Vatnsmýri, sem áður var leigt, flyst til Alvotech frá dótturfélagi Aztiq, fjárfestingarfélagi Róberts Wessman, í skiptum fyrir breytilegt víkjandi skuldabréf að fjárhæð um 11,7 milljarðar króna.
Í tengslum við kaup á fasteigninni hefur verið gerður nýr lánasamningur við Landsbankann, sem eykur fjármögnun Alvotech um u.þ.b. 2,3 milljarða króna.
Hafði lækkað um 13% eftir uppgjörið
Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech hafði lækkað um 13% í 36 milljóna króna viðskiptum á First North-markaðnum í dag áður en tilkynningin um fjármögnunina var send út. Félagið birti uppgjör fyrir þriðja fjórðung í gærkvöldi.
Tekjur fyrstu níu mánuði ársins voru 59,2 milljónir dala eða um 8,5 milljarðar króna á gengi dagsins. Rekstrartap nam 266 milljónum dala eða sem nemur 38 milljörðum króna. Afkoma eftir skatta var neikvæð um 193 milljónir dala eða 27,6 milljarða króna.
Eignir Alvotech voru bókfærðar á 683 milljónir dala eða 97,5 milljarða króna í lok september. Eigið fé var neikvætt um 277 milljónir dala eða 39,6 milljarða dala miðað við gengi dagsins.
Í uppgjörstilkynningu Alvotech segir að viðræður hafi haldið áfram við Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) um meðferð beggja umsókna um markaðsleyfi fyrir AVT02 (adalimumab) líftæknilyfjahliðstæðuna. Fyrirtækið stefni enn að markaðssetningu í Bandaríkjunum 1. júlí 2023 að fengnu samþykki.