Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði um 6,5% í 556 milljóna króna viðskiptum í dag og stóð í 1.450 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Alvotech birti ársuppgjör eftir lokun markaða í gær.
Tekjuspáin færð niður
Heildartekjur félagsins í fyrra hafi numið 492 milljónum dollara, eða ríflega 65 milljörðum króna, sem er 427% aukning frá fyrra ári. Aðlöguð EBITDA framlegð félagsins var jákvæð um 108 milljónir dollara. Bókfært tap eftir skatta í fyrra nam 231,9 milljónum dala, eða yfir 30 milljörðum króna, sem félagið rakti að stærstum til færslna sem hafa ekki áhrif á handbært fé.
Alvotech birti einnig uppfærða tekjuspá og afkomuspá fyrir árið 2025. Félagið gerir ráð fyrir að aðlöguð framlegð EBITDA verði á bilinu 180-260 milljónir dala í ár.
Uppfærð tekjuspá gerir ráð fyrir að heildartekjur félagsins í ár verði á bilinu 570-670 milljónir dala. Til samanburðar gerði fyrri áætlun ráð fyrir að tekjurnar yrðu á bilinu 600-800 milljónir dala, líkt og bent er á í umfjöllun Innherja.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,7% í 3,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Hlutabréf Kviku banka lækkuðu um 24,9% sem má rekja til þess að í dag er arðleysisdagur vegna 23 milljarða króna arðgreiðslu bankans, eða sem nemur 5 krónum á hlut, sem tengist að stærstum hluta sölunni á TM til Landsbankans.
Hlutabréfaverð Kviku stóð í 16,15 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar en til samanburðar var gengi félagsins við lokun markaða í gær 21,5 krónur.
Auk Alvotech og Kviku, þá lækkuðu hlutabréf Nova, Icelandair og Oculis um meira en 2% í dag.