Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech lækkaði um 12,7% í 71 milljónar króna viðskiptum á First North-markaðnum í dag. Gengi félagsins stendur nú í 856 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra frá skráningu þess í júní síðastliðnum. Hlutabréf félagsins hafa fallið um þriðjung á þessum tíma.

Alvotech birti uppgjör eftir lokun markaða í gær. Tekjur félagsins voru um 8,5 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins og tap eftir skatta var um 27,6 milljarðar króna. Eigið fé var neikvætt um 277 milljónir dala í lok september eða 39,6 milljarða dala miðað við gengi dagsins.

Líftæknifyrirtækið tilkynnti svo um hádegisleytið í dag að það hefði tryggt sér aðgengi að nýrri fjármögnun að fjárhæð tæplega 20 milljarðar króna. Þá hafi fyrirtækið tekið við eignarhaldi verksmiðjuhúsnæðisins í Vatsnmýri af Aztiq í skiptum fyrir breytilegt víkjandi skuldabréf.

VÍS hækkar um 2,2%

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,4% í 2,9 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Festi lækkaði mest eða um 1,6% og stendur gengi félagsins í 188 krónum á hlut.

Mesta veltan var með hlutabréf Icelandair eða um 718 milljónir króna. Gengi flugfélagsins hækkaði lítillega og stóð í 1,83 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar.

VÍS hækkaði um 2,2%, mest af félögum aðalmarkaðarins. Tryggingafélagið tilkynnti í morgun um að endurkaupaáætlun væri hafin eftir að samþykki barst frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans. Áætlunin kveður á um að félagið muni kaupa allt að 5,71% af útgefnu hlutafé til 1. febrúar næstkomandi. Fjárhæð endurkaupanna getur numið að hámarki 1,8 milljörðum.