Hlutabréfaverð Alvotech hefur fallið um meira en 3% í fyrstu viðskiptum í dag og stendur gengi líftæknifyrirtækisins í 1.495 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð.
Alvotech birti ársuppgjör eftir lokun markaða í gær. Þar var upplýst um að heildartekjur félagsins í fyrra hafi numið 492 milljónum dollara, eða ríflega 65 milljörðum króna, sem er 427% aukning frá fyrra ári. Aðlöguð EBITDA framlegð félagsins var jákvæð um 108 milljónir dollara.
Bókfært tap eftir skatta í fyrra nam hins vegar 231,9 milljónum dala, eða yfir 30 milljörðum króna. Félagið rakti stærsta hluta tapsins til færslna sem hafa ekki áhrif á handbært fé, þ.e. gangvirðisbreytinga á afleiðutengdum skuldum auk áhrifa af endurfjármögnun útistandandi skulda félagsins.
Eignir Alvotech voru bókfærðar á 1,2 milljarða dala í árslok 2023 og eigið fé var neikvætt um tæplega 413 milljónir dala.
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um eitt prósent frá opnun Kauphallarinnar í morgun. Þess má geta að gengi hlutabréfa Kviku banka hefur lækkað um 24% sem má einkum rekja til þess að í dag er arðleysisdagur vegna 23 milljarða króna arðgreiðslu, eða sem nemur 5 krónum á hlut, sem tengist að stærstum hluta sölunni á TM til Landsbankans.
Hlutabréfaverð Kviku stendur í 16,35 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð en til samanburðar var gengi félagsins við lokun Kauphallarinnar í gær 21,5 krónur.