Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 1,79% í viðskiptum dagsins og lokaði í 2.684,23 stigum. Vísitalan hefur ekki verið lægri síðan í nóvember í fyrra.
Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði um 11,4% í 722 milljón króna viðskiptum í dag en gengi félagsins hefur nú lækkað um tæp 18% síðastliðna tvo viðskiptadaga.
Líftæknilyfjafélagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða á miðvikudaginn en félagið skilaði rekstrarhagnaði upp á 70 milljónir dala, um 9,3 milljörðum króna, á árinu 2024 en árið áður var rekstrartap upp á 355 milljónir dala, um 46,9 milljarða króna.
Tekjur félagsins jukust um 427% á milli ára og námu 492 milljónum dala.
Svo virðist þó sem að fjárfestar séu ekki að taka vel í uppfærða afkomuspá félagsins fyrir árið í ár en í fjárfestakynningu Alvotech var greint frá því að heildartekjur í ár yrðu á bilinu 570 til 670 milljónir dala.
Tekjur vegna sölu á líftæknilyfjahliðstæðum, einkum Humira og Stelara, eru áætlaðar um 340 til 410 milljónir dala á meðan leyfis- og áfangatekjur munu nema á bilinu 230 til 260 milljónum dala.
Samsvarar það um tíu prósenta samdrætti í tekjum miðað við fyrri afkomuspá en félagið hafði áður gert ráð fyrir um 600 til 800 milljónum dala í tekjur á árinu.
Gengi Símans lækkaði um rúm 3% í 178 milljón króna viðskiptum í dag og var dagslokagengi félagsins 14,3 krónur.
Hlutabréfaverð Eimskips lækkaði um tæp 3% í 73 milljón króna veltu og lokaði í 422 krónum á hlut.
Hlutabréfaverð Play hækkaði um tæp 5% í örviðskiptum en flugfélagið greindi frá því í dag að Play Europe, dótturfélag Fly Play hf., hefði fengið afhent flugrekstrarleyfi (AOC) frá flugmálayfirvöldum á Möltu. Flugrekstrarleyfið var afhent við hátíðlega athöfn á Möltu í morgun.
Heildarvelta á markaði nam 54,6 milljörðum en uppgjör Eyris Invest við hluthafa fór fram í dag þar sem þeir fengu afhent bréf í JBT Marel að andvirði 51,25 milljarða króna miðað við viðmiðunargengi.