Hlutabréfaverð Alvotech leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi líftæknilyfjafélagsins fór upp um rúm 4% í 743 milljón króna veltu.
Gengi Alvotech hefur nú hækkað um rúm 19% síðastliðinn mánuð en hlutabréfaverð félagsins fór upp um rúm 18% síðastliðið ár. Dagslokagengi Alvotech var 1.850 krónur.
Gengi Íslandsbanka hækkaði um 2% í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi bankans 126,5 krónur.
Hlutabréfaverð líftæknilyfjafélagsins Oculis hækkaði einnig um tæp 2%. Gengi félagsins lokaði í 2.420 krónum en hæsta dagslokagengi Oculis var 2.460 krónur í byrjun nóvembermánaðar.
Líftæknilyfjafélagið mun ganga frá umsókn um markaðsleyfi á OCS-01 hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) á fyrsta fjórðungi þessa árs.
Gengi Icelandair leiddi lækkanir á aðalmarkaði er gengi flugfélagsins fór niður um 2%. Dagslokagengi Icelandair var 1,43 krónur.
Hlutabréfaverð Sýnar lækkaði einnig um tæp 2% í viðskiptum dagsins og lokaði gengið í 31,6 krónum.
Heildarvelta á markaði var 3,8 milljarðar og hækkaði úrvalsvísitalan um 0,81% í viðskiptum dagsins.