Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,3% í 3,3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Sautján félög aðalmarkaðarins voru græn og fjögur græn í viðskiptum dagsins.
Alvotech leiddi hækkanir en gengi líftæknifyrirtækisins hækkaði um 4,4% í 236 milljóna veltu og stendur nú í 1.920 krónum.
Auk Alvotech þá hækkuðu hlutabréf Icelandair, Reita, Regins, Íslandsbanka og Haga um meira en 3% í dag.
Mesta veltan var með hlutabréf Marels, eða um 557 milljónir, sem lækkuðu um 0,4%. Gengi Marels stendur nú í 548 krónum.
11,7 milljarða velta á skuldabréfamarkaðnum
Velta á skuldabréfamarkaðnum nam 11,7 milljörðum króna í dag. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um þá var veltan á skuldabréfamarkaðnum í gær 22 milljarðar króna. Dagleg velta var síðast meiri í mars 2020.
Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkaði um 14-21 punkta í öllum flokkum nema RIKB 23 en ávöxtunarkrafan í þeim flokki lækkaði um 52 punkta. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa með lokagjaldaga árin 2026 og 2030 hækkaði um 4-5 punkta.