Gengi bréfa Alvotech hækkaði um 4,44% í 432 milljón króna viðskiptum í dag, mest allra félaga á markaði. Gengi bréfa félagsins stendur nú í 2 þúsund krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra.

Hlutabréfaverð í Alvotech hefur hækkað um 35% það sem af er ári. Félagið er einnig skráð á markað í New York þar sem gengið stendur í tæpum 14 krónum á hlut, sem er talsvert yfir 10 dala útboðsgengi.

Smásölufélögin Festi og Hagar hækkuðu næst mest félaga á markaði í dag. Festi hækkaði um tæp 4% í 450 milljóna veltu á meðan Hagar hækkaði um 2,2% í 360 milljón króna viðskiptum. Þá hækkaði flugfélagið Icelandair um hálft prósentustig og stendur gengi félagsins nú í 2,06 krónum á hlut.

Fimm félög lækkuðu á aðalmarkaði í dag. Brim lækkaði um 1,66% í 530 milljóna veltu og Marel um 1,4% í 280 milljóna veltu.

Á First North var talsvert um lækkanir, en flugfélagið Play lækkaði um rúm þrjú prósentustig í 130 milljóna viðskiptum.