Alvotech hefur gert samstarfssamning við Dr. Reddy’s Laboratories SA, dótturfyrirtæki Dr. Reddy’s Laboratories Ltd. um sölu- og markaðssetningu AVT03, líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech við Prolia og Xgeva, sem bæði innnihalda denosumab. Dr. Reddy er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar á Indlandi.

„Við kynnum með ánægju nýjan samstarfsaðila sem mun gera okkur kleift að auka enn frekar framboð af hagstæðum líftæknilyfjum á alþjóðlegum mörkuðum,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech.

„Sameiginlegt markmið okkar og Dr. Reddy‘s er að tryggja að sjúklingar hafi aðgengi að bestu meðferð og að draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu.“

Fyrirframgreiðsla

Prolia og Xgeva eru líftæknilyf við ýmsum þrálátum sjúkdómum sem tengjast beinum, þar með talið beinþynningu kvenna eftir tíðahvörf og er notað til að fyrirbyggja einkenni frá beinum hjá fullorðnum með langt gengna illkynja sjúkdóma sem tengjast beinum.

Alvotech þróar og mun framleiða lyfið, en Dr. Reddy‘s mun sjá um skráningu og markaðssetningu.

Í tilkynningu Alvotech til Kauphallarinnar kemur fram að samningurinn geri ráð fyrir fyrirframgreiðslu til Alvotech og árangurstengdum greiðslum til félagsins við helstu áfanga í lyfjaþróun og markaðssetningu, auk hlutdeildar í tekjum.

Dr. Reddy‘s mun hafa einkarétt til að selja lyfið í Bandaríkjunum en fer með sameiginlegan rétt til markaðssetningar í Bretlandi og öðrum ríkjum Evrópu.