Hlutabréf Alvotech verða tekin til viðskipta í Nasdaq kauphöllinni í New York í dag. Bréfin verða skráð undir auðkenninu ALVO og áskriftarréttindi undir auðkenninu ALVOW. Lokið er samruna Alvotech við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II („OACB“), sem stofnað var af dótturfélagi Oaktree Capital Management, L.P.

„Við samrunann, sem samþykktur var af hluthöfum OACB 7. júní 2022, varð til sérhæft alþjóðlegt fyrirtæki sem skráð er á markað og einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja, en það er sá geiri lyfjamarkaða um allan heim sem er í einna örustum vexti,“ segir í tilkynningu Alvotech.

Í skráningarferlinu aflaði Alvotech nýs hlutafjár að verðmæti 22,7 milljarða króna eða um 175 milljóna Bandaríkjadala frá innlendum og alþjóðlegum fjárfestum, gegn útgáfu almennra hluta á genginu 10 dali. Meðal þátttakenda í hlutafjáraukningunni voru Suvretta Capital, Athos (fjárfestingarfélag Strüngmann fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek Holdings, YAS Holdings, Farallon Capital Management og Sculptor Capital Management.

Söguleg tvískráning

Við upphaf viðskipta er gert ráð fyrir að Alvotech verði eina íslenska fyrirtækið sem skráð er á markað í Bandaríkjunum. Jafnframt er stefnt að því að bréf í Alvotech verði tekin til viðskipta á íslenska First North-markaðnum í Reykjavík frá og með 23. júní næstkomandi, en það yrði í fyrsta sinn sem bréf í íslensku fyrirtæki eru skráð samtímis til viðskipta í á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Sjá einnig: Vill veita Íslendingum gott aðgengi

„Skráning á markað er söguleg stund í vaxtarferli Alvotech,“ sagði Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. „Við teljum að með þessu skrefi náum við að efla stöðu okkar á markaði fyrir líftæknihliðstæðulyf og veita samstarfsaðilum okkar og sjúklingum um allan heim enn betri þjónustu.“

„Oaktree er afar stolt af því að vinna með Alvotech, sem hefur byggt upp aðstöðu á heimsmælikvarða og einbeitir sér að því mikilvæga verkefni að auka framboð af bráðnauðsynlegum lyfjum með lægri tilkostnaði,“ sagði Howard Marks, einn af stofnendum og stjórnarformönnum Oaktree. „Við lítum björtum augum á áframhaldandi samstarf við Alvotech, sem nú eykur umsvif sín enn frekar.“

Til að fagna skráningu hlutabréfa fyrirtækisins í New York, mun Róbert hringja bjöllunni í höfuðstöðvum Nasdaq í New York til að opna markaðinn. Finna má beint streymi af athöfninni, sem hefst kl. 13:20 að íslenskum tíma, hér.