Íslenska líftæknifyrirtækið Alvotech tapaði 513,6 milljónum dala árið 2022, eða sem nemur 73 milljörðum króna, samanborið við 101,5 milljóna dala tap árið áður. Hlutabréfaverð Alvotech, sem birti ársuppgjör í gærkvöldi, hefur lækkað um 0,75% í fyrstu viðskiptum í dag.
Heildartekjur Alvotech hækkuðu um 114% á milli ára og námu í 85 milljónum dala eða um 12 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Tekjur Alvotech koma einkum frá sölu á AVT02, líftæknihliðstæðu við Humira®, sem komin er á markað í 17 löndum, auk leyfis- og áfangagreiðslna.
Alvotech bíður eftir markaðsleyfi fyrir AVT02 í Bandaríkjunum þar sem megnið af sölu á Humira á sér stað. Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) staðfesti í desember að afstaða til umsóknar um markaðsleyfi fyrir AVT02 myndi liggja fyrir 13. apríl nk. og jafnframt að eftirlitið hyggist hefja úttekt á verksmiðju Alvotech í Reykjavík á mánudaginn, 6. mars.
„Rekstur Alvotech gekk vel á árinu 2022. Félagið var skráð á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og á Íslandi og bættust á annað þúsund hluthafa í hóp eigenda félagsins sem ég vil bjóða velkomna. Það var jafnframt ánægjulegt að sjá mikinn vöxt í tekjum félagsins á milli ára sem nam 114%, en sala á AVT02, líftæknilyfjahliðstæðu við Humira, er nú hafin í 17 löndum. Alvotech hélt áfram að fjárfesta í framleiðsluaðstöðu sinni á Íslandi ásamt því að fjárfesta enn frekar í lyfjaþróun félagsins,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, í afkomutilkynningu.
„Við hlökkum til framhaldsins á árinu 2023 sem verður án efa spennandi. Úttekt Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) á framleiðsluaðstöðu Alvotech á Íslandi hefst mánudaginn 6. mars og mun standa yfir til 17. mars. Starfsfólk Alvotech hefur undirbúið félagið vel fyrir þessa úttekt og reiknum við með að geta hafið markaðssetningu 1. júlí nk. í Bandaríkjunum á líftæknilyfjahliðstæðu okkar við Humira, sem er þó háð samþykki FDA.“
Í árslok 2022 átti félagið 66,4 milljónir dala, eða um 9,5 milljarða króna, í lausu fé. Eignir Alvotech voru bókfærðar á 828 milljónir dala í lok síðasta árs, eða um 118 milljarða króna. Heildarskuldir félagsins voru um 764,6 milljónir dala.
Eigið fé Alvotech var neikvætt um 564 milljónir dala eða sem nemur 80 milljörðum króna um áramótin.
Alvotech lauk 19,5 milljarða króna lokuðu hlutfjáraútboði í janúar síðastliðnum. Íslenskir lífeyrissjóður tóku þátt í útboðinu fyrir tæplega 7 milljarða króna.