Tekjur Alvotech jukust til muna á fyrsta fjórðungi og er gert ráð fyrir að þær fimmfaldist milli ára.
Tekjur líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech námu 37 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi sem samsvarar um 5 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Um töluverða hækkun er að ræða á milli ára en tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2023 námu 16 milljónum dala.
Framlegð félagsins á fyrsta fjórðungi 2024 var 17 milljónir dala, sem er 40 milljóna dollara aukning frá sama tímabili í fyrra en líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá gerði Alvotech nýverið sölusamninga um markaðssetningu í Bandaríkjunum á líftæknilyfjahliðstæðunni við Humira og áfyrirhugaðri hliðstæðu við Prolia og Xgeva í Bandaríkjunum og Evrópu.
„Í ljósi hagfelldrar þróunar í markaðsmálum og lyfjaþróun, uppfærum við afkomuspána fyrir árið, hækkum tekjuspá úr 300-400 milljónum dala í 400-500 milljónir dala og spáum því nú að EBITDA verði í efri mörkum þess sem við höfðum áður gert ráð fyrir, eða á bilinu 100 – 150 milljónir dala,“ segir Joel Morales, fjármálstjóri Alvotech, í uppgjörinu.
Samkvæmt afkomuspá Alvotech fyrir árið 2024, sem birtist í marsmánuði, var gert ráð fyrir tekjum á bilinu 300- 400 milljónir dala í ár.
Samkvæmt ársuppgjöri 2023 námu tekjur félagsins 93,4 milljónum dala í fyrra sem var 10% aukning frá árinu áður. Ný uppfærð tekjuspá gerir því ráð fyrir um fimmföldum tekjuvexti milli ára.
„Þetta er þegar orðið eitt viðburðaríkasta ár í sögu Alvotech. Frá því að við birtum uppgjör fyrir síðasta ár höfum við fagnað markaðsleyfi frá Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) fyrir AVT04, líftæknilyfjahliðstæðu okkar við Stelara, undirritað mikilvægan samning um sölu- og markaðssetningu í Bandaríkjunum á hliðstæðunni við Humira og samið um sölu í Bandaríkjunum og Evrópu á AVT03, fyrirhugaðri hliðstæðu við Prolia og Xgeva. Þá er Teva, samstarfsaðili okkar í Bandaríkjunum, að ná góðum árangri í viðræðum um greiðsluþátttöku fyrir hliðstæðuna við Humira við bandarísku tryggingarfélögin,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech í uppgjörinu.
Töpuðu um 30 milljörðum á fyrsta fjórðungi
Þann 31. mars sl. átti félagið 64,8 milljónir dala í lausu fé, að undanskildum 25 milljónum dala í bundnu fé. Þá námu heildarskuldir félagsins 978,1 milljónum dala að meðtöldum 37,6 milljóna dala næstu árs afborgun.
Bókfært tap Alvotech á fyrsta ársfjórðungi nam 218,7 milljónum dala samanborið við 276,2 milljóna dala tap á sama tímabili í fyrra. Tapaði Alvotech því um 30 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi á gengi dagsins.
Í uppgjörinu segir að tapið megi að stórum hluta rekja til gangvirðisbreytinga á afleiðutengdum skuldum. Gangvirðisbreytingarnar eru færðar í uppgjörinu sem fjármagnsgjöld en fjármagnsgjöld Alvotech námu 184,1 milljón dala á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 207,6 milljónir dala á sama tíma í fyrra.
Gjöldin eru tilkomin vegna gangvirðisbreytinga á afleiðutengdum skuldum, sem námu 140,9 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi 2024, en 179,1 milljón dala á sama tímabili í fyrra.
„Góður gangur er jafnframt í lyfjaþróunarverkefnunum. Við kynntum nýlega jákvæðar niðurstöður úr samanburðarrannsókn á sjúklingum sem staðfestir klíníska virkni AVT06, fyrirhugaðrar hliðstæðu við Eylea. Þá birtum við jákvæðar niðurstöður úr rannsókn sem staðfesti klíníska virkni AVT05, fyrirhugaðrar hliðstæðu við Simponi og Simponi Aria. Við stefnum á að sækja um markaðsleyfi fyrir a.m.k. þrjú ný lyf seinni hluta ársins og þær áætlanir standast fyllilega,“ segir Róbert Wessman.