Hlutabréfaverð Alvotech á Íslandi endaði daginn í 1.500 krónum á hlut eftir 27% hækkun í 100 milljóna króna veltu. Gengi félagsins hefur aldrei verið hærra á íslenska hlutabréfamarkaðnum frá skráningu í júní sl. Alvotech hefur sömuleiðis hækkað um 22,9% á bandaríska hlutabréfamarkaðnum í dag og stendur í 10,2 dölum þegar fréttin er skrifuð.
Líftæknilyfjafyrirtækið er nú orðið verðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni. Markaðsvirði Alvotech er komið upp í 413,6 milljarða króna en til samanburðar er markaðsvirði Marel 379,4 milljarðar.
Alvotech tilkynnti í morgun að Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) hefði lokið skoðun á umsókn um markaðsleyfi fyrir líftæknilyfjahliðstæðu Humira í háum styrk og staðfest að framlögð gögn sýni að kröfur um útskiptileika séu uppfylltar. Veiting markaðsleyfis í Bandaríkjunum sé nú háð fullnægjandi niðurstöðu komandi endurúttektar á framleiðsluaðstöðu fyrirtækisins í Reykjavík sem áætlað er að fari fram á fyrsta fjórðungi 2023.
400 milljóna stök viðskipti með bréf Origo
Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,25% í 3,4 milljarða króna veltu í dag. Sjóvá hækkaði næst mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,4% í 300 milljóna veltu. Auk Sjóvá og Alvotech, þá hækkuðu bréf Skeljar, Nova og Arion einnig um meira en 1%.
Hlutabréf Festi og Icelandair lækkuðu um meira en 1% í dag, mest af félögum aðalmarkaðarins.
Mesta veltan var með hlutabréf Origo eða um 633 milljónir króna en gengi félagsins stóð óbreytt í 101 krónu á hlut. Veltuna má að stærstum hluta rekja til 407 milljóna króna viðskipta í lok dags.