Málmleitarfélagið Amaroq Minerals hefur sent frá sér kauphallartilkynningu um fyrirhugaða hlutafjáraukningu að andvirði um 20 milljónir punda, eða sem samsvarar 3,5 milljörðum króna, á verðinu 86 pens eða 151 króna á hlut.

Með hlutafjáraukningunni horfir Amaroq til þess að styrkja efnahagsreikning félagsins fyrir næsta ár og gera því kleift að nýta vaxtartækifæri í eignasafni þess í Grænlandi, að því er segir í tilkynningunni.

„Í framhaldi af góðum rannsóknarniðurstöðum og þeim merka áfanga að framleiða fyrsta gull í Nalunaq horfum við björtum augum á árið 2025,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq.

„Þessari hlutafjáraukningu er ætlað að hraða vexti í eignasafni okkar á Grænlandi, samhliða því sem við vinnum okkur upp í fulla framleiðslugetu í Nalunaq. Andvirði hennar verður nýtt í víðtækar rannsóknarboranir í Nanoq eftir afar góðar niðurstöður í ár, sem og að styðja enn frekar við starfsemi okkar á sviði grænna málma, grænnar orku og með fjárfestingum í tækjum og búnaði.“

Undirbúa skráningu á aðalmarkað Í London

Amaroq Minerals hefur verið skráð í Kauphöllina frá því í nóvember 2022, en félagið færði sig yfir á aðalmarkaðinn hér heima í september 2023. Hlutabréf Amaroq eru einnig skráð í TXS Venture kauphöllinni í Kanada og á AIM markaðnum í London.

Amaroq hefur nú byrjað að meta og undirbúa skráningu á aðalmarkað í London.

Fjármögnunin skiptist niður á hina þrjá markaði sem félagið er skráð á. Landsbankinn hefur samþykkt að sölutryggja allt að 10 milljónir punda, eða 1,8 milljarða króna af hlutafjárútboðinu, á íslensku hliðinni. Þá hafi ákveðnir stjórnarmenn gefið til kynna að þeir hyggist skrá sig fyrir 2,1 milljón punda eða um 369,6 milljónir króna, í Kanada.