Hlutabréfaverð auðlindafélagsins Amaroq Minerals, sem er skráð á First North-markaðinn, hækkaði um 17,1% í 61 milljónar króna viðskiptum í dag.
Gengi félagsins stendur nú í 82 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra frá skráningu á íslenska markaðinn í byrjun nóvembermánaðar. Hlutabréfaverð Amaroq hefur hækkað um 29% frá lokagenginu á fyrsta viðskiptadagsium á First North þann 1. nóvember síðastliðinn.
Amaroq birti í morgun niðurstöður rannsókna á Nalunaq þróunarsvæðinu á Suður-Grænlandi sem gefa til kynna að svæðið sé mun stærra og ríkara af gulli en áður var talið.
Origo hækkar um 8,3%
Á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkaði Úrvalsvísitalan um 0,5% í 2,3 milljarða króna viðskiptum. Það má m.a. rekja til þess að Arion banki lækkaði um 0,9%, Marel um 0,8% og Íslandsbanki um 0,7%.
Hlutabréfaverð Origo hækkaði hins vegar um 8,3% í ríflega 200 milljóna króna viðskiptum. Gengi Origo stendur nú í 91 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra við lokun Kauphallarinnar.
Í dag er réttindaleysisdagur vegna 24 milljarða króna útgreiðslu til hluthafa í formi lækkunar hlutafjár vegna sölunnar á eignarhlut félagsins í Tempo. Það felur í sér að hluthafar sem halda enn á bréfum eða seldu bréf í dag eða síðar fá greiddar krónur til samræmis við hlutafjárlækkunina. Nánar tiltekið var gærdagurinn síðasti viðskiptadagur með bréf Origo fyrir hluthafa að selja fyrir framkvæmd lækkunarinnar.
Hlutabréf Nova hækkuðu einnig um 3% í 140 milljóna viðskiptum. Gengi Nova stendur nú í 4,06 krónum og hefur ekki verið hærra síðastliðinn mánuð.