Úrvalsvísitalan stóð nánast í stað í 1,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan eða um 219 milljónir króna var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 0,8%.

Hlutabréfaverð Amaroq Minerals lækkaði um 1,9%, mest af félögum aðalmarkaðarins, í 42 milljóna króna veltu. Gengi málmleitarfélagsins stóð í 104,5 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar.

Dagslokagengi Amaroq hefur nú lækkað um 30,6% frá því að það fór hæst í 150,5 krónur þann 7. mars síðastliðinn. Þá er markaðsverð hlutabréfa Amaroq orðið 17,7% lægra en 127 króna útgáfuverðið í 7,6 milljarða króna hlutafjáraukningunni sem félagið lauk í febrúar sl.

Auk Amaroq þá lækkaði gengi hlutabréfa Ölgerðarinnar, Símans og Eimskips einnig um meira en eitt prósent í dag.