Hlutabréfaverð Amaroq hækkaði um rúm 3% í um 150 milljón króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag.
Dagslokagengi félagsins var 152 krónur en málmleitarfélagið lauk í gær 4,8 milljarða króna hlutafjárútboði á genginu 151 króna á hlut (86 pens).
Amaroq nýtti sér stækkunarheimild í útboðinu til að styrkja félagið enn frekar og hleypa nýjum alþjóðlegum fjárfestum inn í ljósi 60% umframeftirspurnar.
Útboðið var stækkað um 37,5%, úr 20 milljónum punda í 27,5 milljónir punda.
Í kauphallartilkynningu félagsins í morgun sagði að söluandvirði útboðsins, umfram áður fyrirhugaða 3,5 milljarða, verði varið til að hraða vexti félagsins innan eignasafns þess í Grænlandi sem og að styrkja enn frekar efnahagsreikning félagsins.
Alls verður 32.034.664 nýjum hlutum úthlutað til núverandi og nýrra hluthafa. Nýju hlutirnir nema um 8,1% af útgefnu hlutafé félagsins eftir hækkunina.
Fasteignafélagið Kaldalón hækkaði um tæp 2% í viðskiptum dagsins en félagið lauk nýverið við 7,8 milljarða fasteignaviðskipti er félagið keypti allt hlutafé annars vegar IDEA ehf. og hins vegar K190 hf.
Hlutabréfaverð Alvotech leiddi lækkanir er gengi félagsins fór niður um 1,5% í 219 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Alvotech var 1.580 krónur.
Gengi Alvotech hefur lækkað um 12% síðastliðinn mánuð.
Úrvalvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,37% og var heildarvelta á markaði um 3,7 milljarðar.