Málmleitarfélagið Amaroq Minerals hefur lokið 4,8 milljarða króna hlutafjárútboði á genginu 151 krónu á hlut (86 pens). Útboðið var stækkað um 37,5%, úr 20 milljónum punda í 27,5 milljónir punda í ljósi 60% umframeftirspurnar, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Við nýttum okkur stækkunarheimild í útboðinu til að styrkja félagið enn frekar sem og til að hleypa að nýjum alþjóðlegum fjárfestum sem sýndu félaginu mikinn áhuga í ferlinu,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, í tilkynningu.

„Ég vil þakka öllum fjárfestum, jafnt núverandi hluthöfum sem og nýjum, fyrir þann mikla stuðning sem þeir sýna félaginu með þátttöku í hlutafjáraukningunni.“

Félagið segir að söluandvirði útboðsins, umfram áður fyrirhugaða 3,5 milljarða, verði varið til að hraða vexti félagsins innan eignasafns þess í Grænlandi sem og að styrkja enn frekar efnahagsreikning félagsins.

Alls verður 32.034.664 nýjum hlutum úthlutað til núverandi og nýrra hluthafa. Nýju hlutirnir nema um 8,1% af útgefnu hlutafé félagsins eftir hækkunina. Reiknað er með að viðskipti með hina nýju hluti hefjist þann 16. desember 2024.

Landsbankinn hf., Acro verðbréf hf. og Fossar fjárfestingarbanki hf. voru sameiginlegir söluráðgjafar með útboðinu á Íslandi og Landsbankinn sölutryggði einnig útboðið að hluta. Panmure Liberum Limited og Canaccord Genuity Limited voru ráðgjafar og söluaðilar félagsins í Bretlandi.