Vefverslunar- og skýjaþjónusturisinn Amazon hyggst segja upp tæplega 10 þúsund manns eða um 3% af skrifstofustarfsfólki sínu á næstu dögum, samkvæmt heimildum New York Times. Um yrði að ræða stærstu uppsagnarlotu í sögu Amazon.

Uppsagnirnar verða helst miðaðar að tækjaeiningu félagsins, sem nær m.a. til raddstýrða hátalarans Alexa. Auk þess horfi Amazon á smásölu- og mannauðssvið sitt samkvæmt heimildarmönnum NYT.

Hlutabréfaverð Amazon hefur fallið um meira en 40% í ár. Gengi félagsins lækkaði töluvert í lok október samhliða uppgjöri þriðja fjórðungs en rekstraráætlun Amazon fyrir jólavertíðina var nokkuð undir væntingum greiningaraðila.

Amazon er ekki fyrsta tæknifyrirtækið til að tilkynna um stóra uppsagnarlotu á síðustu vikum. Meta, móðurfélag Facebook, sagðist á dögunum ætla að segja upp 11 þúsund manns eða um 13% af starfshópi sínum.