Tæknifyrirtækið Amazon hefur samþykkt að kaupa 2% hlut í heimsendingarþjónustunni Grubhub, bandaríska dótturfélagi Just Eat Takeaway. Amazon gefst kostur á að eignast allt að 15% hlut í Grubhub samkvæmt skilmálum samningsins. Hlutabréf Just Eat hafa hækkað um nærri 20% í dag. Financial Times greinir frá.
Samningurinn felur einnig í sér að notendur Amazon Prime í Bandaríkjunum gerast meðlimir að heimsendingarþjónustu Grubhub í eitt ár.
Sjá einnig: Just Eat Takeaway íhugar sölu á Grubhub
Hið hollenska Just Eat er eitt af stærstu matarsendingarfyrirtækjum heims en hefur þó tapað meira en helmingi af markaðsvirði sínu í ár. Just Eat hefur fengið á sig gagnrýni frá hluthöfum vegna 7,3 milljarða dala yfirtökunnar á Grubhub.