Amazon hefur stöðvað framkvæmdir við seinni höfuðstöðvar sínar í Arlington, Virginia í Bandaríkjunum. Netrisinn segir að enn standi til að ljúka 2,5 milljarða dala verkefninu sem hann ætlar að muni fjölga störfum á svæðinu um 25 þúsund fram að árinu 2030. Financial Times segir frá.
Um átta þúsund manns starfa í dag hjá Amazon í starfstöðinni í Arlington en búið er að ljúka fyrsta fasa framkvæmdanna. Til stóð að annar fasinn myndi hefjast í ár en hann inniheldur þrjár skrifstofubyggingar og „Gorminn“ (The Helix), hundrað metra háan gormlaga turn sem átti að verða miðpunktur svæðisins.
Fyrirtækið hefur ekki gefið upp hvenær áætlað er að framkvæmdir hefjist á ný. Amazon sagði að stöðvun framkvæmdanna væri ekki tengd ákvörðuninni um að fækka störfum um 18 þúsund, sem tilkynnt var um í janúar. Félagið sagðist stöðugt vera að meta þarfir sínar á skrifstofuhúsnæði.