Amazon hefur tryggt sér 8 milljarða dala óveðsett lán sem félagið hyggst nýta í almennan rekstur félagsins. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters.

Lánið er með gjalddaga eftir 364 daga, með möguleika á 364 daga framlengingu.

„Á tímum efnahagslegrar óvissu höfum við nýtt okkur mismunandi fjármögnunarmöguleika á undanförnum mánuðum til að styðja við fjármagnsútgjöld, endurgreiðslur skulda, yfirtökur og veltufjárþörf félagsins,“ segir í yfirlýsingu frá Amazon.

Árið 2022 var erfitt fyrir tæknifyrirtækin vestanhafs, en gengi bréfa Amazon hefur lækkað um tæp 50% frá byrjun árs 2022.

Þá hefur Amazon lagst í umfangsmiklar hópuppsagnir á undanförnum misserum. Félagið hyggst halda því áfram á nýju ári og segir í grein Reuters að Amazon stefni á að fækka starfsmönnum um allt að tíu þúsund.