DK hugbúnaður skilaði 860 milljóna króna hagnaði eftir skatta á árinu 2023, samanborið við 485 milljóna hagnað árið 2022. Þetta er annað metárið í röð hjá hugbúnaðarfyrirtækinu sem var stofnað árið 1998.
Stjórn hugbúnaðarfyrirtækisins lagði til við aðalfund að greiddur yrðir út arður til móðurfélagsins, TSS Blue Dynasty Holding ehf. að fjárhæð 860 milljónir króna. Til samanburðar greiddi DK út 485 milljónir króna í fyrra.
Rekstrartekjur DK hugbúnaðar jukust um 21,3% milli ára, eða um 484 milljónir, og námu 2.759 milljónum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins fór úr 581 milljón í 984 milljónir milli ára. Ársverk voru 59 í fyrra samanborið við 60 árið 2022.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir að rekstur síðasta árs hafi verið í takt við áætlanir stjórnenda og einkenndist einna helst af þróun nýrra lausna fyrir viðskiptavini félagsins.
Nýjar útgáfur af dk hugbúnaðinum voru gefnar út, sem innihéldu nýja eiginleika og endurbætur. Einnig voru gefnar út nýjar útgáfur af dk skattahugbúnaðinum, dk iPOS appinu, dk One og lausnum fyrir heilbrigðisgeirann og stéttarfélög. „Nýjum lausnum var sérlega vel tekið af viðskiptavinum.“
DK hugbúnaður, sem fagnaði 25 ára starfsafmæli í fyrra, flutti höfuðstöðvar félagsins í nýtt húsnæði að Dalvegi 30.
DK hugbúnaður er í eigu Total Specific Solutions (TSS), dótturfélags alþjóðlegu hugbúnaðarsamstæðunnar Tobicus. TSS gekk frá kaupum á dk hugbúnaði, sem var þá að mestu í eigu stofnenda félagsins, árið 2020.