Launakostnaður á unna stund var að meðaltali 7.980 krónur á Íslandi árið 2024 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Mestur var launakostnaðurinn 10.998 krónur í fjármála- og vátryggingastarfsemi en var minnstur í gisti- og veitingarekstri, eða 5.956 krónur.

Til launakostnaðar teljast ekki aðeins greidd laun til starfsfólks heldur einnig annar launatengdur kostnaður eins og tryggingagjald, veikindi, mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði og greiðslur í stéttarfélög og vegna orlofs.

Launakostnaður er summa allra greiddra launa og launtengdra gjalda, kostnaðar vegna starfsmenntunar, annars kostnaðar sem vinnuveitendur greiða og starfstengdra skatta.

Í greiningu Hagstofunnar segir að hlutfall annars launakostnaðar en launa árið 2024 hafi verið 20,8%. Frá árinu 2018 hefur hlutfallið verið á bilinu 20,4% til 20,8% og því um litlar breytingar að ræða síðastliðin ár.

„Hlutfall annars launakostnaðar en launa hefur einnig breyst lítið á milli ára innan einstakra atvinnugreina en hlutfallið er nokkuð breytilegt á milli atvinnugreina. Lægst var hlutfallið 18,7% í fasteignaviðskiptum og 18,9% í rekstri gististaða og veitingastaða. Hæst var það 23,1% í heilbrigðis- og félagsþjónustu og 22,7% í fræðslustarfsemi.“