Í þessum mánuði hafa stórar samrunaviðræður verið áberandi í íslensku fjármálalífi. Íslandsbanki og Kvika banki eiga nú í samrunaviðræðum. Ef samruni bankanna gengur í gegn verður til stærsta fjármálafyrirtæki landsins. Í gær var svo tilkynnt að tryggingafélagið VÍS og Fossar fjárfestingabanki ættu í samrunaviðræðum. Meðan fyrrnefndu viðræðurnar þóttu óvænt tíðindi verður slíkt hið sama tæplega sagt um hinar síðarnefndu. Þannig greindi Innherji nýlega frá því að stjórn tryggingafélagsins hefði rætt fyrr í vetur að kanna möguleikann á samruna við Fossa.
Þröngur stakkur viðskiptabankanna
Snorri Jakobsson, framkvæmdastjóri greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital, segir ofangreinda samruna ólíka í eðli sínu. Samruni VÍS og Fossa snýst meira um að styrkja rekstur fyrirtækjanna, meðan samruni Kviku og Íslandsbanka snýst meira um að ná fram samlegð á ákveðnu sviði. Að auki séu samrunar á íslenskum viðskiptabankamarkaði mun flóknari en á fjárfestingabankamarkaði. „Samkeppnieftirlitið (SKE) hefur metið viðskiptabankamarkaðinn sem fákeppnismarkað og allir samrunar innan þess markaðar eru því mjög erfiðir. Ef Íslandsbanki og Kvika ákveða að sameinast þarf SKE að taka ákvörðun um hvort samruninn verði samþykktur eða ekki og í hvaða formi. Það ferli tekur langan tíma og gæti liðið heilt ár áður en niðurstaða fæst í málið.“
Íslensk löggjöf sníði viðskiptabönkunum mjög þröngan stakk til vaxtar vegna þjóðhagslegs mikilvægis þeirra. „Viðskiptabankamarkaðurinn býður ekki upp á mikinn vöxt á erlendri grundu. Það væri mjög erfitt fyrir Seðlabanka Íslands að styðja við bankana ef þeir væru með stóra starfsemi erlendis, eins og þeir voru með fyrir hrun,“ segir Snorri. Loks sé gríðarleg stærðarhagkvæmni í bankarekstri og því hagkvæmast að reka aðeins einn viðskiptabanka á Íslandi, ef eingöngu væri horft til rekstrarlegra forsendna.