Sjóðstýringarfyrirtækið Stefnir hefur unnið greiningar á fjármálum sveitarfélaganna síðastliðin ár en Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis, segist sjá viðhorfsbreytingu hjá borgarstjóra gagnvart fjárhagsvanda borgarinnar.

„Við sjáum í nýbirtum árshlutareikningi vegna janúar til júní 2024 að jákvæð þróun er að eiga sér stað. Skuldastaða Reykjavíkurborgar er um margt betri en víða hjá sveitarfélögum en sannarlega hefur þróun síðustu ára verið áhyggjuefni. Lítill áhugi fyrir skuldabréfum Reykjavíkurborgar fyrir nokkru mátti hugsanlega túlka sem ákall fjárfesta til stjórnenda Reykjavíkurborgar um að bregðast við stöðunni og gangast við vandanum,” segir Jón.

„Miðað við hljóðið í borgarstjóra á síðasta uppgjörsfundi í liðinni viku þá virðist afstaðan vera að breytast. Því ber að fagna. Álag á skuldabréf Reykjavíkur hefur einnig lækkað á undanförnum vikum og er nú ekki langt frá álagi á skuldabréf Lánasjóðs sveitarfélaga. Breytt afstaða til verkefnisins getur hér haft áhrif,“ bætir hann við.

Stefnir ákvað í ár að meta fjármál sveitarfélaganna með stigagjöf en niðurstaðan á útreikningum sjóðsins verður aðgengileg á vb.is. á morgun.

Reykjanesbær kemur þar langbest út og hvetur Jón til þess að borgin setjist niður með bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar.

„Á jákvæðum nótum, þá mætti líta til þess hversu vel hefur gengið hjá Reykjanesbæ að snúa sínum rekstri við á undanförnum árum. Við hvetjum til samtals milli Reykjavíkurborgar og Reykjanesbæjar þar sem læra má af þeim mikla viðsnúningi sem átt hefur sér stað í Reykjanesbæ. Samkvæmt okkar stigagjöf, byggt að skoðun á fjárhag yfir mörg ár og hjá mörgum sveitarfélögum, þá fær Reykjanesbær flest stig allra þegar litið er til rekstrar sveitarfélaganna á árinu 2023,” segir Jón.

„Fyrst og fremst vinnusemi og dugnaður bæjarbúa“

Spurður almennt um þróun sveitarfélaganna segir Jón mörg slæm rekstrarár að baki.

„Ef litið er á þróun í fjármálum sveitarfélaga aftur til ársins 2010 og til ársloka 2023 þá virðist sem staðan hafi víða versnað frá árunum 2016-2019 og til ársloka 2023. Við sjáum að víða hafa skuldir vaxið umfram íbúaþróun og neikvæð þróun á veltufé frá rekstri hefur gert vart við sig. Svo virðist sem þessi þróun stafi frekar af þróun kostnaðarliða en skorti á tekjum. Við sjáum til að mynda að víða fjölgar stöðugildum umfram íbúaaukningu, sem fer gegn væntingum um aukna stærðarhagkvæmni í rekstri sveitarfélaga,“ segir Jón.

Hann bendir jafnframt á að borgar- og bæjarstarfsmenn megi ekki klappa sjálfum sér á bakið alveg strax þrátt fyrir afkomubata í fyrra.

„Að sumu leyti má því segja að bjallan hafi bjargað hér, því það er jú fyrst og fremst vinnusemi og dugnaður bæjarbúa sem ræður því hvernig útsvarstekjur þróast. Svolítið öfugsnúið að hrósa sveitarfélögum fyrir rekstrarbata þegar skatttekjur eru umfram áætlanir, þegar sú niðurstaða er fyrst og fremst byggð á launahækkunum á vinnumarkaði og vinnusemi íbúa,“ segir Jón.