Hugbúnaðarfyrirtækið App Dynamic hagnaðist um 585 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í leiðréttum ársreikningi félagsins. Greint var frá afkomu félagsins í Viðskiptablaði síðustu viku og á vef blaðsins síðastliðinn sunnudag, en þá var hagnaðurinn gefinn upp sem 350 milljónir og hefur því aukist um 235 milljónir eða 67% við leiðréttinguna.

Mismunurinn fólst í vörubirgðum upp á 294 milljónir sem bókaðar höfðu verið sem kostnaðarverð seldra vara, líkt og þær hefðu þegar verið seldar og söluandvirði þeirra kæmi fram í 1,4 milljarða króna tekjum félagsins. Hið rétta er að þær sátu enn óseldar á lager og var eignastaða félagsins því rýmri sem þeim nam, eða áðurnefndum tæpum 300 milljónum króna.

Kostnaðarverð seldra vara og þar með rekstrarkostnaður lækkar um samsvarandi fjárhæð, þar sem sá hluti varanna hafði jú ekki enn gengið út, með áðurnefndum áhrifum á rekstrar- og endanlegan hagnað félagsins, auk 60 milljóna króna hækkunar tekjuskattsskuldbindingar fyrir árið sem rís upp í ríflega 150 milljónir króna fyrir vikið.

Heildareignir félagsins námu yfir 1,3 milljarði króna í árslok samkvæmt hinum uppfærða reikningi, og eigið fé ríflega milljarði og var eiginfjárhlutfall því 78%. Hvor tveggja upphæðanna meira en tvöfaldaðist milli ára, eigið féð þó ívið meira, og hækkaði hlutfallið því lítillega.

Greidd laun námu 129 milljónum og skiptust á 10 ársverk, svo mánaðarlaun voru tæp hátt í 1,1 milljón króna að meðaltali.

Eins og vikið er að í áðurnefndri upphaflegri frétt um ársreikning félagsins segir Pratik Kumar, stofnandi, eigandi og framkvæmdastjóri félagsins, að tilgangur hinna miklu vöruinnkaupa hafi verið sá að birgja sig upp af helstu söluvöru félagsins, AirServer Connect 2, í aðdraganda útgáfu arftaka hennar, Connect 3.

Það tæki var það fyrsta sem félagið hannaði frá grunni, og segja má að við það hafi félagið orðið að tæknifyrirtæki fremur en einungis hugbúnaðar-.

Hönnunarferlið, sem og framleiðsluferlið sem við af því tók, tóku hins vegar sinn tíma, og því taldi Pratik ráðlegt að eiga nóg af Connect 2 til að mæta eftirspurn á meðan.