Apple hefur ákveðið að bjóða upp á afslátt af nýjustu iPhone-símum sínum í Kína í aðdraganda kínverska nýársins, sem verður haldinn hátíðlegur 29. janúar nk. Tæknirisinn mun einnig bjóða upp á afslætti á öðrum vörum á kínverska markaðnum.
Viðskiptavinir í Kína geta fengið 500 júana, eða rúmlega 9.500 króna, afslátt af iPhone 16 Pro eða iPhone 16 Pro Max og 400 júana, eða 7.600 króna, afslátt af iPhone 16 eða iPhone 16 Plus.
Apple hefur lengi verið á móti því að bjóða upp á afslætti af vörum sínum í Kína. Það hefur þó leyft smásölum og þriðju aðilum að bjóða upp á tilboð á ákveðnum tíma ársins. Samkeppnin þar í landi hefur hins vegar aukist til muna og hefur Apple boðið upp á sífellt fleiri tilboð.
Fyrirtækið bauð upp á svipuð tilboð yfir kínverska nýárið í fyrra og fyrir júní var boðið upp á afslætti fyrir hina svokölluðu 618-verslunarhátíð. Sú hátíð fer fram 18. júní og var stofnuð af verslunarsíðunni JD.com.
Samkeppnin hefur þá aðallega komið frá Huawei en markaðshlutdeild þess hefur hækkað úr 13% í 16%. Á sama tíma hefur markaðshlutdeild Apple í Kína farið úr 16% niður í 14%.