Vogunarsjóðir og fjárfestar drógu andann léttar um helgina eftir að stjórnvöld í Washington tilkynntu undanþágur frá tollum á snjallsíma, fartölvur og önnur raftæki sem framleidd eru í Kína.
Ekkert bandarískt fyrirtæki átti meira undir slíkri undanþágu en Apple, stærsta skráða fyrirtæki heims, sem hefði annars orðið fyrir umtalsverðu höggi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í byrjun apríl umfangsmikla tolla á vörur frá Kína, sem voru síðan auknir til muna dögum síðar.
Hefðu þeir tekið gildi í óbreyttri mynd hefði Apple staðið frammi fyrir erfiðum valmöguleikum samkvæmt The Wall Street Journal. Annaðhvort þyrfti félagið að lækka eigin framlegð, sem þegar hefur verið undir þrýstingi, eða að hækka verð á vörum sem nú þegar kosta yfir þúsund dollara.
Fjárfestar hafa fagnað undanþágunni og hafa hlutabréf Apple verið á uppleið í viðskiptum dagsins. Bréf félagsins eru þó enn langt frá fyrra verði en gengi Apple lækkaði um nærri 12% eftir fyrstu tollatilkynninguna og hefur ekki náð sér að fullu.
Aðrir tæknirisar í Bandaríkjunum töpuðu að meðaltali aðeins um 2% á sama tímabili, sem bendir til að fjárfestar meti áhættuna af tollum fyrir Apple sérstaklega mikla.
Um helgina létu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í veðri vaka að frekari tollar á raftækni væru í undirbúningi.
Viðskiptaráðherra Howard Lutnick sagði á sunnudag að fleiri tollar væru væntanlegir á raftæki, og forsetinn sjálfur staðhæfði á samfélagsmiðlum að „ENGINN sleppi við tolla“. Af þessu má ráða að undanþágan sé aðeins hlé í átökum, ekki endir þeirra.
Fyrir Apple vekur þessi staða upp grundvallarspurningar um framtíð alþjóðlegrar framleiðslu.
Tollamálin snerta þó ekki aðeins framleiðslukostnað Apple.
Þau gætu einnig haft áhrif á stefnu félagsins í öryggismálum.
Bandarísk stjórnvöld hafa lengi þrýst á Apple um að veita lögreglu aðgang að tækjum með svokallaðri „bakdyr“ í hugbúnaðinum, kröfu sem fyrirtækið hefur hingað til staðfastlega hafnað. Í ljósi hins aukna pólitíska þrýstings gæti það mál vaknað að nýju.
Fyrir tollatilkynningu Trumps var félagið metið á um 29-földa áætlaða ársávöxtun – mun hærra en flestir tæknikeppinautar og meira en tvöfalt miðað við framleiðendur á borð við Samsung, Dell og HP.
Slík yfirverðlagning byggðist á stöðugum hagnaði og skilvirkri alþjóðlegri aðfangakeðju.
Í nýjum veruleika, þar sem bandarísk stjórnvöld eru tilbúin að beita viðskiptaaðgerðum sem stjórntæki, er ekki lengur sjálfgefið að Apple njóti slíkrar sérstöðu.
Fyrirtæki sem selur árlega vörur framleiddar erlendis fyrir yfir 300 milljarða dala stendur veikt í heimi þar sem hnattvæðing dregst saman.