Vogunar­sjóðir og fjár­festar drógu andann léttar um helgina eftir að stjórn­völd í Was­hington til­kynntu undanþágur frá tollum á snjallsíma, fartölvur og önnur raf­tæki sem fram­leidd eru í Kína.

Ekkert bandarískt fyrir­tæki átti meira undir slíkri undanþágu en App­le, stærsta skráða fyrir­tæki heims, sem hefði annars orðið fyrir um­tals­verðu höggi.

Donald Trump Bandaríkjaforseti til­kynnti í byrjun apríl um­fangs­mikla tolla á vörur frá Kína, sem voru síðan auknir til muna dögum síðar.

Hefðu þeir tekið gildi í óbreyttri mynd hefði App­le staðið frammi fyrir erfiðum val­mögu­leikum sam­kvæmt The Wall Street Journal. Annaðhvort þyrfti félagið að lækka eigin fram­legð, sem þegar hefur verið undir þrýstingi, eða að hækka verð á vörum sem nú þegar kosta yfir þúsund dollara.

Fjár­festar hafa fagnað undanþágunni og hafa hluta­bréf App­le verið á upp­leið í við­skiptum dagsins. Bréf félagsins eru þó enn langt frá fyrra verði en gengi App­le lækkaði um nærri 12% eftir fyrstu tolla­til­kynninguna og hefur ekki náð sér að fullu.

Aðrir tæknirisar í Bandaríkjunum töpuðu að meðaltali aðeins um 2% á sama tíma­bili, sem bendir til að fjár­festar meti áhættuna af tollum fyrir App­le sér­stak­lega mikla.

Um helgina létu for­svars­menn ríkis­stjórnarinnar í veðri vaka að frekari tollar á raf­tækni væru í undir­búningi.

Við­skiptaráðherra Howard Lutnick sagði á sunnu­dag að fleiri tollar væru væntan­legir á raf­tæki, og for­setinn sjálfur staðhæfði á sam­félags­miðlum að „ENGINN sleppi við tolla“. Af þessu má ráða að undanþágan sé aðeins hlé í átökum, ekki endir þeirra.

Fyrir App­le vekur þessi staða upp grund­vallar­spurningar um framtíð alþjóð­legrar fram­leiðslu.

Tollamálin snerta þó ekki aðeins fram­leiðslu­kostnað App­le.

Þau gætu einnig haft áhrif á stefnu félagsins í öryggis­málum.

Bandarísk stjórn­völd hafa lengi þrýst á App­le um að veita lög­reglu að­gang að tækjum með svo­kallaðri „bak­dyr“ í hug­búnaðinum, kröfu sem fyrir­tækið hefur hingað til staðfast­lega hafnað. Í ljósi hins aukna pólitíska þrýstings gæti það mál vaknað að nýju.

Fyrir tolla­til­kynningu Trumps var félagið metið á um 29-földa áætlaða ársávöxtun – mun hærra en flestir tækni­keppi­nautar og meira en tvöfalt miðað við fram­leiðendur á borð við Sam­sung, Dell og HP.

Slík yfir­verðlagning byggðist á stöðugum hagnaði og skil­virkri alþjóð­legri að­fanga­keðju.

Í nýjum veru­leika, þar sem bandarísk stjórn­völd eru til­búin að beita við­skipta­að­gerðum sem stjórntæki, er ekki lengur sjálf­gefið að App­le njóti slíkrar sér­stöðu.

Fyrir­tæki sem selur ár­lega vörur fram­leiddar er­lendis fyrir yfir 300 milljarða dala stendur veikt í heimi þar sem hnatt­væðing dregst saman.