Bandaríski tæknirisinn Apple hefur ákveðið að hætta við áform sín um framleiðslu á rafbíl rúmum áratugi eftir að fyrirtækið gaf til kynna að slíkt verkefni væri í gangi. Apple hefur aldrei formlega greint frá verkefninu en áætlað er að um tvö þúsund manns unnu að því.

Samkvæmt fréttamiðlinum Bloomberg News verða margir starfsmenn verkefnisins fluttir yfir í gervigreindardeild fyrirtækisins.

Bíladeild Apple var þekkt sem Special Projects Group undir verkefninu Project Titan sem forstjórinn Tim Cook setti fram á sínum tíma. Orðrómar voru uppi um að fyrirtækið ynni að framleiðslu sjálfkeyrandi bíls án stýris og pedala.

Apple hefur verið að eyða miklum fjárhæðum í rannsóknarvinnu undanfarið en nýlega voru kynnt á markað sýndarveruleikagleraugun Vision Pro.