Apple á nú í viðræðum um að fjárfesta í OpenAI sem þróar spjallmennið ChatGPT, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.

Áhugi Apple á fjárfestingunni gefur skýrt til kynna að félagið leggi nú áherslu á að tryggja sér aðgang að fremstu tækninni á sviði gervigreindar.

Auk þess myndi fjárfesting festa betur í sessi samstarf félaganna tveggja en tilkynnt var í júní að OpenAI hefði verið valið fyrsti formlegi samstarfsaðilinn fyrir Apple Intelligence, nýs kerfi sem á að tryggja innleiðingu á gervigreindartækni í stýrikerfi Apple. Fjárfestingin gæti þó flækt fyrir tækifærum Apple til að hefja samstarf við önnur gervigreindarfyrirtæki.

Í umfjölluninni segir að Apple fjárfesti yfirleitt ekki í sprotafyrirtækjum heldur hafi félagið á síðustu árum fremur einblínt á að fjárfesta í samstarfsfyrirtækjum á framleiðsluhliðinni til að tryggja betur aðgang að íhlutum fyrir tæki.

OpenAI verði metið á yfir 100 milljarða dala

Möguleg kaup Apple yrðu hluti af nýrri fjármögnunarlotu hjá OpenAI þar sem gervigreindarfyrirtækið verður líklega metið á yfir 100 milljarða dala. Vísifjárfestingarfélagið Thrive Capital leiðir fjármögnunarlotuna sem mun hljóða upp á nokkra milljarða dala.

Talið er að Microsoft, sem hefur þegar fjárfest fyrir tæplega 13 milljarða dala í OpenAI, muni taka þátt í lotunni. Í umfjöllun WSJ kemur fram að núverandi eignarhlutur tryggi Microsoft 49% af hagnaði OpenAI.

Ekki er vitað hvað Apple eða Microsoft sjá fyrir sér að fjárfesta fyrir mikið.