Apple er komið með meira en 50% markaðshlutdeild á snjallsímamarkaði í Bandaríkjunum í fyrsta skipti í sögu félagsins. Þannig er nú meirihluti snjallsímaeigenda í Bandaríkjunum að nota iPhone, en Android snjallsímar höfðu verið með meira en 50% markaðshlutdeild frá árinu 2010. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Sérfræðingur hjá Counterpoint segir stýrikerfi að vissu leyti vera eins og trúarbrögð. Fólk sé ekki mikið að breyta til um stýrikerfi, þ.e. að fara úr Android í iOS, stýrikerfi Apple, eða öfugt. Hins vegar hafi breyting orðið þar á á undanförnum fjórum árum og sífellt fleiri farið úr Android yfir í iOS. Þannig var markaðshlutdeild Apple um 35% fyrir fjórum árum.

Fyrsti iPhone síminn kom út árið 2007. Ári síðar komu fyrstu snjallsímarnir með Android stýrikerfi út. Á árunum 2007-2010 voru Nokia, Motorola, Windows og BlackBerry með meirihluta markaðshlutdeildar á farsímamarkaði, á meðan snjallsímar voru að ryðja sér til rúms. Frá og með árinu 2010 hafa Android símarnir hins vegar verið markaðsleiðandi á snjallsímamarkaði, þar til nú.

Gengi bréfa Apple stendur í tæpum 158 dölum á hlut og hefur lækkað um 13,2% frá áramótum.