Jón Pálmason, sem hefur um langt skeið átt helmingshlut í Miklatorgi hf., rekstrarfélagi Ikea á Íslandi, á móti bróður sínum Sigurði Gísla Pálmasyni, er orðinn eini eigandi félagsins. Þetta kemur fram í skráningu um raunverulegan eiganda Miklatorgs í fyrirtækjaskrá Skattsins en Viðskiptablaðið hefur jafnframt fengið það staðfest að Jón sé nú eini eigandi Ikea á Íslandi. Kaupverð viðskiptanna liggur ekki fyrir.

Ikea á Íslandi hagnaðist um rétt rúmlega einn milljarð króna á síðasta rekstrarárið, samanborið við 1,1 milljarð rekstrarárið á undan. Velta verslunarinnar nam 15 milljörðum og dróst lítillega saman frá fyrra rekstrarári, eða um 237 milljónir. EBITDA nam 1,2 milljörðum og dróst saman um 111 milljónir á milli rekstrarára. Eigið fé nam 1,5 milljörðum í lok rekstrarársins 2024 og eignir 3,4 milljörðum.

Jón og Sigurður Gísli eru synir Pálma Jónssonar, stofnanda Hagkaupa, sem opnaði fyrstu IKEA verslunina hér á landi á níunda áratugnum.

Seldu gullgæsina í Eystrasaltinu

Miklatorg hafði lengi verið í eigu Eignarhaldsfélagsins Hofs ehf. Eignarhaldsfélagið Hof er svo í 50% eigu Dexter fjárfestinga ehf., félags Sigurðar Gísla, og Fari ehf., félag Jóns, á jafn stóran hlut. Miklar breytingar hafa aftur á móti átt sér stað að undanförnu á samstæðunni. Eignarhaldsfélagið Hof var móðurfélag IKEA á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá síðasta haust seldu bræðurnir rekstur IKEA í Eystrasaltinu til Inter IKEA Group.

Í nýbirtum ársreikningi Eignarhaldsfélagsins Hofs fyrir síðasta rekstrarár, sem nær yfir tímabilið 1. september 2023 til 31. ágúst 2024, kemur fram að samstæðan hafi alls rekið níu verslanir og þjónustustöðvar á Íslandi, í Eistlandi. Lettlandi og Litháen, auk þess að reka vefverslanir í öllum löndunum. Snemma á rekstrarárinu hafi félagið hafið formlegt söluferli dótturfélögum samstæðunnar sem lauk svo eins og fyrr segir með sölu þeirra. Haustið 2024 hafi öll skilyrði þessara kaupsamninga verið uppfyllt og í desember síðastliðnum hafi endanlegur frágangur viðskiptanna farið fram. Því hafi allur rekstur tengdur sérleyfissamningi við Inter Ikea Systems B.V., eiganda Ikea vörumerkisins, verið seldur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.